Erlent

Óttast að María sé að stela at­hyglinni frá Jesú á samfélagsmiðlum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Leó páfi er sagður hafa lagt blessun sína yfir yfirlýsinguna.
Leó páfi er sagður hafa lagt blessun sína yfir yfirlýsinguna. Getty/Maria Grazia Picciarella

Páfagarður hefur gefið frá sér yfirlýsingu, samþykkta af Leó páfa, þar sem segir að Jesús einn hafi frelsað mannkynið og bjargað því frá helvíti. María hafi ekki átt þar þátt.

Samkvæmt Guardian er um að ræða viðbrögð við aukinni tilhneigingu kaþólikka til að eigna Maríu aðild að syndaaflausn mannkynsins, sem Páfagarður segir ekki við hæfi.

Í yfirlýsingunni segir að Jesú hafi bjargað mannkyninu með því að fórna sér á krossinum og að á meðan María hafi vissulega greitt fyrir þeirri niðurstöðu með því að fæða frelsarann, eigi ekki að líta svo á að hún sé einhvers konar með-bjargvættur.

Páfa síðustu áratuga eru sagðir hafa verið ósammála í afstöðu sinni til málsins; Frans og Benedikt ku hafa verið á móti því að eigna Maríu heiður af frelsun mannkynsins, á meðan Jóhannes Páll er sagður hafa viljað heiðra þátt meyjarinnar.

Samkvæmt yfirlýsingunni er hætt við því að það valdi „ruglingi“ að kalla Maríu „bjargvætt“ og þá sé hætt við því að það varpi skugga á ímynd Jesú sem hins eina sanna frelsara.

Guardian hefur eftir heimildarmönnum innan Páfagarðs að yfirlýsingunni sé ætlað að setja hömlur á útbreiðslu „dýrkunar meyjarinnar“, sem er sögð hafa breitt úr sér á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×