Handbolti

Greint frá ráðningu á vef nýja þjálfarans

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Daði Arnarsson og Hanna G. Stefánsdóttir fá það krefjandi verkefni í hendurnar að koma Stjörnunni á réttan kjöl.
Arnar Daði Arnarsson og Hanna G. Stefánsdóttir fá það krefjandi verkefni í hendurnar að koma Stjörnunni á réttan kjöl. Samsett/Vísir

Hanna Guðrún Stefánsdóttir og Arnar Daði Arnarsson munu sjá um að stýra kvennaliði Stjörnunnar í handbolta út yfirstandandi keppnistímabil, eftir brotthvarf Patreks Jóhannessonar.

Frá þessu greinir Handkastið á vef sínum og hefur eftir heimildum en annar ritstjóra Handkastsins er einmitt annar nýju þjálfaranna, fyrrnefndur Arnar Daði.

Handboltagoðsögnin Hanna stýrði Stjörnunni í 22-22 jafnteflinu við KA/Þór síðastliðinn laugardag, í fyrsta leiknum eftir að Patrekur hætti. Þar náðu Stjörnukonur í sitt fyrsta stig á leiktíðinni, eftir tap í fyrstu sex leikjunum.

Arnar Daði hefur verið aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar og mun áfram sinna því starfi, en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvernig hlutverkin skiptast á milli hans og Hönnu hjá kvennaliðinu.

Næsti leikur Stjörnunnar er á laugardaginn þegar liðið sækir ÍR heim í Skógarselið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×