Enski boltinn

Rooney og Schmeichel fundu til með Liverpool: „Þetta er slæm á­kvörðun“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, bregst hér við eftir að jöfnunarmark hans á móti Manchester City var dæmt af í gær.
Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, bregst hér við eftir að jöfnunarmark hans á móti Manchester City var dæmt af í gær. Getty/Carl Recine/

Virgil van Dijk hélt að hann hefði jafnað metin fyrir Liverpool á móti Manchester City í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í gær. Markið var hins vegar dæmt af og Manchester City endaði á því að gjörsigra Liverpool 3–0.

Dómari leiksins var kallaður á skjáinn og dæmdi í framhaldinu markið af. Virgil van Dijk skallaði þarna hornspyrnu Mo Salah í netið en markið var dæmt af þar sem dómararnir töldu að Andy Robertson, sem var rangstæður, hafi staðið í vegi fyrir sjónlínu markvarðarins.

Gagnrýndu ákvörðun dómaranna

Manchester United-goðsagnirnar Peter Schmeichel og Wayne Rooney fundu báðir til með Liverpool og gagnrýndu ákvörðun dómaranna.

Schmeichel gat ekki skilið hvernig markið fékk ekki að standa. „Þetta er slæm ákvörðun,“ sagði Schmeichel í útsendingu Viaplay og hélt áfram:

„Hver veit hvort hann truflar markvörðinn þarna? Hver veit það? Enginn. Þeir þurfa að vera nákvæmari í reglunum,“ sagði Schmeichel og hélt áfram:

„Þetta þarf að vera miklu skýrara, við getum ekki verið með þessa umræðu. Mér finnst þetta svolítið hart gagnvart Liverpool, að markið sé ekki dæmt gilt,“ sagði Schmeichel.

Röng ákvörðun

Wayne Rooney, sérfræðingur BBC, gagnrýndi ákvörðunina einnig. „Ég held ekki að Andy Robertson hafi truflað Donnarumma í því að verja skotið. Markvörður City sá boltann alla tímann svo mér finnst þetta hafa verið röng ákvörðun,“ segir Rooney samkvæmt BBC.

Virgil van Dijk sjálfur var fámáll um atvikið eftir leikinn. „Það er engin ástæða fyrir mig að tala um það. Sannleikurinn er sá að við töpuðum 0–3 og það er mjög þungt. Það skiptir engu máli hvað ég segi, því allt sem ég segi mun enda í fjölmiðlum og allt landsleikjahléið mun snúast um ummæli mín um ákvörðunina. Ég einbeiti mér bara að því að við töpuðum, þið getið deilt um hvort markið hefði átt að standa,“ sagði van Dijk við Sky Sports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×