Erlent

Mót­mæli gegn loft­mengun í Nýju-Delí: „Ég sakna þess að anda“

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur krefjast aðgerða gegn loftmengun í Nýju-Delí sunnudaginn 9. nóvember 2025.
Mótmælendur krefjast aðgerða gegn loftmengun í Nýju-Delí sunnudaginn 9. nóvember 2025. AP/Manish Swarup

Íbúar í Nýju-Delí á Indlandi komu saman og kröfðust þess að stjórnvöld gripu til aðgerða vegna gríðarlegrar loftmengunar sem er viðvarandi vandamál í borginni.

Þykk mengunarþoka liggur nú yfir Nýju-Delí og er mengun í lofti vel yfir heilbrigðisviðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, að sögn AP-fréttastofunnar.

Mengunin veldur íbúum ýmiss konar kvillum eins og höfuðverk og þrálátum hósta. Þá er svifryksmengun sérlega hættuleg fólki með undirliggjandi öndunarfæra-, hjarta- og æðasjúkdóma.

Hundruð borgarbúa komu saman við Indlandshliðið í borginni til þess að krefjast aðgerða til að stemma stigu við ástandinu sem er viðvarandi í Nýju-Delí. 

„Ég sakna þess að anda,“ sagði á mótmælaspjaldi eins mótmælandans. Margir þeirra voru með grímur.

Mengun stundum tuttugufalt yfir heilbrigðisviðmiðum

Rúmlega þrjátíu milljónir manna búa í Nýju-Delí sem er ein mengaðasta borg í heimi. Sex af tíu efstu borgunum á þeim lista eru á Indlandi. Styrkur svifryks mælist stundum allt að tuttugufalt hærri en heilbrigðisviðmið segja til um.

Loftmengun er sérlega mikil í Nýju-Delí á veturna þegar bændur brenna afgangi af uppskeru sinni á ökrum í grendinni. Svifrykið festist svo í köldu lofti yfir borginni þar sem það blandast mengun frá bílum og iðnaði. Ekki bætir úr skák að veður er yfirleitt þurrt og lygnt að vetri.

Borgaryfirvöld hafa neytt ýmissa bragða í gegnum tíðina, þar á meðal að banna byggingarvinnu tímabundið. takmarka notkun dísilrafstöðva og jafnvel dreift dufti yfir ský til að reyna að framkalla rigningu. Slíkar lausnir eru þó aðeins plástur á sár sem aðeins er hægt að gróa með því að draga úr bruna jarðefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×