Körfubolti

Sátt eftir fyrsta landsleikinn: „Vá, ég er eigin­lega orð­laus“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rebekka Rut Steingrímsdóttir fékk stórt tækifæri í kvöld.
Rebekka Rut Steingrímsdóttir fékk stórt tækifæri í kvöld. vísir/hulda margrét

KR-ingurinn Rebekka Rut Steingrímsdóttir lék sinn fyrsta landsleik þegar Ísland beið lægri hlut fyrir Serbíu, 59-84, í undankeppni EM 2027 í kvöld. Hún stóð fyrir sínu og kvaðst sátt í leikslok.

Rebekka skoraði sjö stig og gaf fimm stoðsendingar í leiknum í Ólafssal í kvöld.

„Þetta var ekkert eðlilega gaman og vá, ég er eiginlega orðlaus,“ sagði Rebekka eftir leikinn.

Hún bjóst ekki við að spila jafn mikið í kvöld og hún gerði. Rebekka lék í 21 mínútu.

„Það kom mér smá á óvart en var ótrúlega gaman,“ sagði hún.

Rebekka virkaði alls óhrædd í leiknum og sótti grimmt á körfuna, líkt og hún gerir venjulega.

„Það var kannski smá ótti fyrir leik en inni á vellinum hugsaði ég bara um leikinn og var ákveðin,“ sagði Rebekka.

En hvað gefur þessi fyrsti landsleikur henni?

„Ég veit það ekki. Þetta er spennandi og ég er bara mjög þakklát,“ sagði Rebekka.

Ísland var 34 stigum undir fyrir 4. leikhlutann, 38-72, en vann hann með níu stigum, 21-12.

„Þetta var bara íslenska geðveikin og vörnin. Við vorum allar á sömu blaðsíðu og ákveðnar,“ sagði Rebekka að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×