Lífið

Á­föll og samskiptamynstur erfast milli kyn­slóða

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Tengslastíllinn okkar hefur bein áhrif á sambönd á fullorðinsárum og getur erfst á milli kynslóða, bæði góð og slæm.
Tengslastíllinn okkar hefur bein áhrif á sambönd á fullorðinsárum og getur erfst á milli kynslóða, bæði góð og slæm. Getty

Hefurðu einhvern tímann velt því fyrir þér hvers vegna þú bregst við á ákveðinn hátt í samskiptum?

Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Auðnast, „Hver er þinn fjölskylduarfur? Sagan sem mótar samböndin okkar“, fjalla Ragnhildur Bjarkadóttir og Hrefna Hugosdóttir um hvernig reynsla úr æsku og jafnvel frá fyrri kynslóðum hefur áhrif á tengslastíl, samskipti og heilsu. 

Ragnhildur og Hrefna er eigendur Auðnast.Auðnast

Kynslóðaarfur og taugakerfið

Rannsóknir sýna að áföll geta haft áhrif milli kynslóða. Börn einstaklinga sem hafa upplifað alvarleg áföll eða ótryggar aðstæður geta þróað með sér næmara taugakerfi sem gerir þau viðkvæmari fyrir streitu, kvíða, svefntruflunum og ofurviðbrögðum.

„Viðbrögðin virðast stundum koma úr engu, en þegar við skoðum þau sjáum við mynstur sem hefur mótast innan fjölskyldunnar yfir margar kynslóðir,“ segir Ragnhildur og bendir á að taugakerfið sé „forritað“ á mismunandi hátt – bæði hjálplegan og hamlandi. Þau hafa jafnvel áhrif á okkar daglega líf, persónulegt og í starfi.

Börn einstaklinga sem hafa upplifað alvarleg áföll eða ótryggar aðstæður geta þróað með sér næmara taugakerfi sem gerir þau viðkvæmari fyrir streitu, kvíða, svefntruflunum og ofurviðbrögðum.Getty

Í þættinum er einnig rætt hvernig reynsla frá uppvexti hefur áhrif á samskipti í parsamböndum, vináttu og öðrum nánum tengslum á fullorðinsaldri.

„Tengslastíllinn hefur bein áhrif á samböndin okkar. Við getum verið kvíðin, forðunarmiðuð, óörugg eða óskipulögð í tengslum, allt eftir því sem mótaðist í félagsmótun frá bernsku og fram á unglingsár. Margt verður að vanabundnum brautum og lífeðlislegum viðbrögðum sem getur reynst erfitt að breyta,“ segir Ragnhildur.

Fjölskyldunni er líkt við lifandi kerfi þar sem tilfinningar, hegðun og viðbrögð móta mynstur sem teygja sig yfir kynslóðir. Þær útskýra að mikilvægt sé að skoða hvernig saga og reynsla móta heilsu og tengslahæfni, hvernig sagan lifir áfram í líkamanum.

„Það er svo mikilvægt að átta sig á hvers vegna við bregðumst við á mismunandi hátt: sumir fara í þögn, aðrir í kvíða eða aukna nánd. Viðbrögðin eru ólík, en ekki tilviljanakennd,“ segir Hrefna.

Meðvitund grunnur að bættri líðan og breytingar

Ragnhildur segir að þegar við byrjum að skilja eigin sögu og samskiptamynstur getum við séð hvaðan viðbrögðin koma og hvort þau séu hjálpleg í dag. Með því að skilja eigin sögu og mynstur getum við rofið keðjuna og skapað heilbrigðara sambandsmynstur.

Þrjú lykilskref ef þú finnur að samskiptin hafa áhrif á þig:

Að þekkja kynslóðaarfinn þinn og velta því fyrir þér hvernig hann hefur áhrif á líf þitt er mikilvægt fyrsta skref. Gott er að skoða þessi mynstur í öruggu umhverfi – ekki strax eftir aðstæður sem hafa triggerað þig, heldur þegar þú hefur ró til að íhuga þau af yfirvegun.

Næsta skref er að meta hvort kynslóðaarfurinn sé gagnlegur eða ógagnlegur, allt eftir samhengi. Sum mynstur geta reynst hjálpleg í starfi en hamlandi í daglegu lífi, eða öfugt. Meðvitund um þetta gerir okkur kleift að taka skýra ákvörðun um hvað við viljum halda og hvað við viljum breyta. Gott er að kortleggja þessi mynstur, skrifa þau niður og sjá þau svart á hvítu.

Þriðja skrefið er að ráðast í raunverulegar breytingar. Það er áhugavert að þegar við skoðum kynslóðaarfinn sjáum við oft að einhver í fjölskyldunni verður sá sem brýtur mynstrin – tengslabrjóturinn. 

Sá einstaklingur tekur meðvitaða ákvörðun um að skapa nýja leið fram á við og ber þannig ábyrgð á breytingu sem getur haft jákvæð áhrif á komandi kynslóðir.

Þáttinn má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.