Enski boltinn

Liverpool-stjarnan grét í leiks­lok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominik Szoboszlai og félagar í ungverska landsliðinu eru úr leik í undankeppni HM en þeir hafa ekki komist á heimsmeistaramótið í 39 ár.
Dominik Szoboszlai og félagar í ungverska landsliðinu eru úr leik í undankeppni HM en þeir hafa ekki komist á heimsmeistaramótið í 39 ár. Getty/ David Balogh

Írar fögnuðu sigri á Puskas-leikvanginum í gær á kostnað Ungverja sem hreinlegra glutruðu frá sér möguleikunum á að vera með á heimsmeistaramótinu í fótbolta næsta sumar. Enginn var sorgmæddari í leikslok en Liverpool-stjarnan Dominik Szoboszlai.

Miðjumaður Liverpool fann þó styrk til að þakka áhorfendum fyrir stuðninginn í leiknum þrátt fyrir að tárin rynnu niður kinnar hans.

Szoboszlai fór einnig í eftirtektarvert viðtal eftir leikinn við M4 Sport, þar sem hann svaraði aðeins með örfáum orðum.

„Mjög, mjög,“ svaraði Szoboszlai stuttlega þegar hann var spurður hversu sárt þetta tap væri. Hann var algjörlega niðurbrotinn og kom varla upp orði.

Spyrill M4 Sport spurði hann þá hvort fótbolti væri stundum ósanngjarn.

„Svo virðist vera, já,“ svaraði Szoboszlai áður en hann yfirgaf viðtalið.

Þetta hefur ekki verið auðvelt haust fyrir fyrirliða ungverska landsliðsins því það hefur einnig gengið skelfilega hjá Liverpool í titilvörninni.

Portúgal tryggir sér beint sæti á HM með fyrsta sætinu í riðlinum, á meðan Írland þarf að fara í umspil í mars. Ungverjaland verður að bíða til 2030 með að gera sér vonir um þátttöku á HM.

Ungverjar hafa verið með á síðustu þremur Evrópumótum en þeir hafa ekki komist á heimsmeistaramótið síðan á HM í Mexíkó 1986 sem var fjórtán árum áður en Szoboszlai fæddist. Ungverska landsliðið spilaði í úrslitaleik HM bæði 1938 og 1954 en það þarf að fara aftur til EM í Englandi 1966 til að finna ungverskt landslið í útsláttarkeppni lokamóts HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×