Handbolti

Markasúpa og Mag­deburg enn með fullt hús í Meistara­deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leiknum gegn Zagreb í kvöld. Hann skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg.
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leiknum gegn Zagreb í kvöld. Hann skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg. getty/Igor Kralj

Íslendingaliðið Magdeburg er áfram með fullt hús stiga á toppi B-riðils Meistaradeildar Evrópu í handbolta eftir sigur á Zagreb í miklum markaleik í kvöld, 35-43.

Magdeburg, sem er Evrópumeistari, vann fyrstu sjö leiki sína í riðlakeppninni og hélt uppteknum hætti í Zagreb í kvöld.

Mörkunum hreinlega rigndi inn og voru 78 þegar uppi var staðið. Spennan var hins vegar ekki mikil því Magdeburg var allan tímann með frumkvæðið.

Átta mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 14-22, og sami munur var á þeim þegar yfir lauk, 35-43.

Matthias Musche, sem er nýkominn til baka eftir meiðsli, fór mikinn í vinstra horninu hjá Magdeburg og gerði ellefu mörk. Tim Hornke skoraði sjö úr hægra horninu.

Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk fyrir Magdeburg, Gísli Þorgeir Kristjánsson tvö og Elvar Örn Jónsson eitt.

Bjarki Már Elísson lék ekki með Veszprém sem sigraði Kolstad, 42-34. Sigvaldi Guðjónsson var heldur ekki með Kolstad.

Benedikt Gunnar Óskarsson var ekki á meðal markaskorara hjá norska liðinu en Sigurjón Guðmundsson varði tvö skot í marki þess.

Veszprém er í 3. sæti A-riðils með tíu stig en Kolstad með tvö stig í 7. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×