Fótbolti

Barcelona bað leik­mann sinn um að hætta að skora mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski fékk furðuleg fyrirmæli frá forráðamönnum Barcelona.
Robert Lewandowski fékk furðuleg fyrirmæli frá forráðamönnum Barcelona. EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL

Robert Lewandowski fékk óvænjulega beiðni frá félaginu sínu á knattspyrnutímabilinu 2022-23. Leikmenn eru oftast beðnir um að skora sem flest mörk fyrir félög sín en ekki að hætta að skora.

Pólskur rithöfundur hefur gefið út nýja ævisögu um Robert Lewandowski. Í bókinni kemur fram að á tímabilinu 2022/2023, eftir að deildarmeistaratitillinn var formlega í höfn hjá Barcelona, hafi forráðamenn félagsins beðið Lewandowski um að hætta að skora mörk.

Leikmaðurinn varð undrandi og ringlaður en skildi síðar að Barcelona hefði þurft að greiða Bayern München viðbótarbónusa fyrir félagaskipti hans ef hann skoraði 25 mörk

Lewandowski skoraði ekki í síðustu tveimur leikjunum og lauk deildartímabilinu með 23 mörk. Hann átti reyndar stoðsendingu en það skipti ekki máli.

Barcelona vann Mallorca 3-0 í fyrri leiknum en tapaði 2-1 fyrir Celta de Vigo í þeim seinni.

Fram að þessum tveimur leikjum þá hafði Lewandowski skorað sex mörk í sex leikjum, þar af fjögur mörk í síðustu þremur leikjum Barcelona á undan deginum sem hann fékk þessa ótrúlegu beiðni.

Fjárhagsvandræði Barcelona hafa fengið mikla athygli síðustu ár og þetta er enn eitt dæmið um það hvernig forráðamenn félagsins reyndu að spara pening.

Þetta var fyrsta tímabil Lewandowski með Barcelona en hann hefur síðan skorað 19 deildarmörk (2023-24), 27 deildarmörk (2024-25) og er kominn með sjö mörk í níu leikjum á þessu tímabili. Samtals gera þetta 76 mörk í aðeins 112 leikjum í spænsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×