Enski boltinn

Rak tána í hurð og missir af risaleikjum

Sindri Sverrisson skrifar
Cole Palmer þarf enn að bíða eftir að geta aftur tekið fagnið sitt fyrir heimsmeistara Chelsea.
Cole Palmer þarf enn að bíða eftir að geta aftur tekið fagnið sitt fyrir heimsmeistara Chelsea. Getty/Darren Walsh

Tímabilið hjá Chelsea-manninum Cole Palmer heldur áfram að vera hreinasta martröð því hann verður áfram frá keppni eftir að hafa tábrotnað heima hjá sér.

Enski landsliðsmaðurinn rak tá á vinstri fæti í hurð þannig að hún brotnaði en frá þessu greindi Enzo Maresca, stjóri Chelsea, á blaðamannafundi í dag.

Til stóð að Palmer myndi snúa aftur til æfinga með aðalliði Chelsea í þessari viku, eftir tveggja mánaða fjarveru vegna nárameiðsla, en nú er ljóst að hann verður áfram frá keppni.

Samkvæmt Maresca mun Palmer missa af hið minnsta næstu þremur leikjum Chelsea; leiknum við Burnley í hádeginu á morgun, við Barcelona í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn og svo öðrum stórleik gegn Arsenal eftir rúma viku.

Við miklu var búist af Palmer í vetur en vegna meiðsla hefur hann aðeins spilað þrjá deildarleiki á þessari leiktíð. Síðasti leikur hans var gegn Manchester United 20. september þar sem hann fór meiddur af velli og síðan þá hefur hann misst af öllum leikjum Chelsea og enska landsliðsins sem nú er komið inn á HM næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×