Körfubolti

Hjón stýrðu sitt hvoru liði í 1. deildinni: Hall­dór skákaði eigin­konu sinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Halldór Karl Þórsson stýrði Fjölni til sigurs gegn Selfossi, sem eiginkona hans Berglind Karen Ingvarsdóttir þjálfar.
Halldór Karl Þórsson stýrði Fjölni til sigurs gegn Selfossi, sem eiginkona hans Berglind Karen Ingvarsdóttir þjálfar. vísir

Hjónin Halldór Karl Þórsson og Berglind Karen Ingvarsdóttir mættust á hliðarlínunni í leik Fjölnis og Selfoss í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld. Halldór skákaði eiginkonu sinni og stýrði Fjölni til 84-77 sigurs.

Halldór hefur verið allt í öllu í þjálfun Fjölnis síðustu ár og gerði, meðal annars, kvennaliðið að deildarmeisturum í Subway deildinni árið 2022.

Berglind á langan leikmannaferil að baki, meðal annars hjá Breiðabliki, Val, Fjölni og Hamri/Þór en er í sínu fyrsta aðalþjálfarastarfi hjá Selfossi.

Berglind Karen Ingvarsdóttir er í sínu fyrsta aðalþjálfarastarfi eftir að hafa lagt skóna á hilluna. 

Leikur liðanna var æsispennandi í kvöld og hitinn á hliðarlínunni hefur eflaust verið heilmikill. Fjölnir bar á endanum sigur úr býtum eftir að hafa unnið sér upp góða forystu í upphafi fjórða leikhluta.

Fjölniskonur eru þar með komnar með fimm sigra í 1. deildinni og komast upp fyrir Selfyssinga í þriðja sæti deildarinnar.

Leilani Kapinus var stigahæst fyrir Fjölni með 25 stig en Hulda Ósk Bergsteinsdóttir gleip flest fráköst eða 11 talsins og saman voru þær stoðsendingahæstar með 9 gjafir hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×