Enski boltinn

Sjáðu þrennuna hjá Eze og öll mörkin úr enska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eberechi Eze er fyrsti leikmaðurinn í hartnær hálfa öld sem skorar þrennu í Norður-Lundúnaslagnum.
Eberechi Eze er fyrsti leikmaðurinn í hartnær hálfa öld sem skorar þrennu í Norður-Lundúnaslagnum. getty/Charlotte Wilson

Eberechi Eze skoraði þrennu þegar Arsenal rúllaði yfir Tottenham, 4-1, í Norður-Lundúnaslagnum í ensku úrvalsdeildinni í gær. Þá vann Aston Villa sjötta sigurinn í síðustu sjö deildarleikjum.

Arsenal hafði mikla yfirburði gegn Tottenham á Emirates í gær. Stjarna Ezes skein skært en hann skoraði þrjú mörk. Hann er fyrsti leikmaðurinn sem skorar þrennu í Norður-Lundúnaslagnum í 47 ár, eða síðan Alan Sunderland gerði það í desember 1978.

Leandro Trossard kom Arsenal á bragðið á 36. mínútu og Eze skoraði svo tvö mörk sitt hvoru megin við hálfleikinn. Richarlison minnkaði muninn með skoti af löngu færi á 55. mínútu en Eze skoraði þriðja mark sitt og fjórða mark Arsenal á 76. mínútu.

Klippa: Arsenal - Tottenham 4-1

Með sigrinum náði Arsenal sex stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Tottenham, sem hefur ekki unnið í þremur leikjum í röð, er í 9. sætinu.

Morgan Rogers var hetja Aston Villa sem sigraði Leeds United á Elland Road, 1-2.

Lukas Nmecha kom nýliðunum yfir á 8. mínútu en Rogers jafnaði í byrjun seinni hálfleiks. Hann skoraði svo sigurmark Villa með skoti beint úr aukaspyrnu á 75. mínútu.

Klippa: Leeds - Aston Villa 1-2

Villa er í 4. sæti deildarinnar en Leeds, sem hefur tapað þremur leikjum í röð, í því átjánda.

Mörkin úr leikjunum tveimur má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×