Fótbolti

Hörður á flugi og vann Hjört í slag um fjórða sæti

Sindri Sverrisson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon í leiknum við Úkraínu fyrr í þessum mánuði. Hann er nú kominn á fulla ferð eftir afar erfiðan tíma vegna meiðsla.
Hörður Björgvin Magnússon í leiknum við Úkraínu fyrr í þessum mánuði. Hann er nú kominn á fulla ferð eftir afar erfiðan tíma vegna meiðsla. Getty/Sebastian Frej

Hörður Björgvin Magnússon fagnaði sigri í kvöld þegar tvö Íslendingalið mættust í grísku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Hörður og félagar í Levadiakos unnu þá dýrmætan útisigur gegn Volos, liði Hjartar Hermannssonar, þrátt fyrir að hafa lent undir um miðjan fyrri hálfleikinn þegar Joca Fernandes skoraði beint úr aukaspyrnu.

Alen Ozbolt jafnaði metin úr víti í lok fyrri hálfleiks og skoraði svo sigurmarkið um miðjan seinni hálfleik.

Hörður, sem sneri aftur inn í íslenska landsliðið fyrr í þessum mánuði, og Hjörtur léku báðir allan leikinn í kvöld.

Levadiakos er nú í 4. sæti grísku deildarinnar með 21 stig, sjö stigum frá toppliði Olympiacos, og hefur nú unnið síðustu þrjá deildarleiki sína í röð eftir að Hörður kom af fullum krafti inn í liðið. Hann var í afar langan tíma frá keppni eftir krossbandsslit haustið 2023, og bakslag í þeim meiðslum, en gekk í raðir Levadiakos frá Panathinaikos í sumar og er nú kominn á fulla ferð.

Volos, sem fékk Hjört frá Ítalíu í byrjun þessa árs, er í 6. sæti með 18 stig eftir 11 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×