Enski boltinn

Fannst ferlega erfitt að horfa á Isak: „Gjörsamlega ó­sýni­legur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Isak hefur ekki enn skorað fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. 
Alexander Isak hefur ekki enn skorað fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.  getty/Liverpool FC

Þeir Ólafur Kristjánsson og Aron Jóhannsson hrifust ekki af frammistöðu Alexanders Isak fyrir Liverpool í tapinu fyrir Nottingham Forest.

Isak, sem er dýrasti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, var í byrjunarliði Liverpool á City Ground en var tekinn af velli þegar 22 mínútur voru eftir. Forest vann leikinn, 0-3.

„Isak var gjörsamlega ósýnilegur í þessum leik. Það var ferlega erfitt að horfa á þennan leikmann sem var svona frábær í fyrra vera svona tannlausan eins og hann var í þessum leik,“ sagði Ólafur í Sunnudagsmessunni.

Klippa: Messan - umræða um Alexander Isak

Aron segir að engin ein skýring sé á slæmri byrjun Isaks með Liverpool.

„Þetta eru svo ótrúlega margir hlutir. Ef við tökum þessa nýju leikmenn. Þeir hafa átt í vandræðum en leikmennirnir sem eru búnir að vera þarna og halda Liverpool uppi í fleiri, fleiri ár eru ekki að stíga upp og hjálpa þessum nýju mönnum sem eru í vandræðum,“ sagði Aron.

„Þetta er ekki bara einhver einn takki sem er hægt að ýta á,“ bætti Valsmaðurinn við.

Ó-Liverpoollegur eltingarleikur

Ólafur tók aftur við boltanum.

„Isak missti af undirbúningstímabilinu. Þetta er bið, hvort hann sé að fara frá Newcastle til Liverpool. Það hefur áhrif eins og að missa af undirbúningstímabilinu. Síðan er þetta verðmiði á honum sem er gríðarlega stór,“ sagði Ólafur.

„Ég var persónulega aldrei hrifinn af þessum eltingarleik Liverpool því mér fannst þetta vera mjög ó-Liverpoollegt að fara í þetta.“

Ólafur og Aron gáfu sumarkaupum Liverpool einnig einkunn í Messunni á sunnudaginn. Aron gaf Isak aðeins tvo í einkunn en Ólafur fjóra.

Isak og félagar hans í Liverpool fá PSV Eindhoven í heimsókn í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Isak, sem er 26 ára, hefur leikið níu leiki fyrir Liverpool og skorað eitt mark.

Innslagið úr Messunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Rooney hvetur Slot til að henda Salah á bekkinn

Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins og Manchester United, segir að Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, þurfi að taka stórar ákvarðanir, eins og að setja Mohamed Salah á varamannabekkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×