Sport

Varð aftur ást­fanginn af fót­bolta í Mosó

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jökull stendur í rammanum hjá FH næsta sumar.
Jökull stendur í rammanum hjá FH næsta sumar. vísir/einar

Markvörðurinn Jökull Andrésson segist vera spenntur fyrir því að berjast í efri hlutanum í Bestu deildinni á næsta tímabili en hann samdi við FH á dögunum.

Jökull semur við FH til ársins 2028 en hann rifti samningi sínum við Aftureldingu á dögunum en Afturelding féll úr Bestu deild karla í sumar. FH mun tilkynna nýjan þjálfara á blaðamannafundi á morgun en samkvæmt heimildum íþróttadeildar mun Jóhannes Karl Guðjónsson taka við liðinu.

„Ég er búinn að vera lengi að spjalla við FH og meira segja síðan í fyrra. Þetta er ótrúlega spennandi klúbbur og þessi völlur hérna er magnaður,“ segir Jökull í Sportpakkanum á Sýn í gærkvöldi en í viðtalinu stendur Jökull á miðjum ísilögðum Kaplakrikavelli.

„Aðstaðan hérna og allt er til fyrirmyndar. Svo er ég búinn að tala við fólkið hérna, fólk í kringum þetta sem náði gjörsamlega að selja mér þetta.“

Eins og áður segir féll Afturelding í sumar. Jökull hefur minni áhuga á því að vera í fallbaráttu næsta sumar.

„Ég er búinn að ræða við forráðarmenn og þjálfarana og það er stefnan að vera í toppslagnum á næsta tímabili. Ég hef fulla trú á því og get einfaldlega ekki beðið.“

Hann segir að það hafi verið erfitt að fara frá Aftureldingu.

„Ég átti fullt af spjöllum við fólkið þar og fjölskyldu og vini. Við fórum upp í Bestu deildina saman og því miður fórum við niður saman líka. En Afturelding lét mig smá verða ástfanginn af fótbolta aftur. Ég fór á smá dimman stað þarna úti í Englandi og ég fann aftur hamingju og þau gáfu mér það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×