Fótbolti

Slot kennir sjálfum sér um eftir „fárán­legt“ gengi

Sindri Sverrisson skrifar
Arne Slot þarf að finna lausnir á slæmu gengi Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Sigur gegn PSV á morgun kæmi liðinu hins vegar í mjög góð mál í Meistaradeild Evrópu.
Arne Slot þarf að finna lausnir á slæmu gengi Liverpool í ensku úrvalsdeildinni. Sigur gegn PSV á morgun kæmi liðinu hins vegar í mjög góð mál í Meistaradeild Evrópu. Getty/Molly Darlington

Englandsmeistarar Liverpool eru aðeins í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, ellefu stigum á eftir toppliði Arsenal, og knattspyrnustjórinn Arne Slot kennir sjálfum sér um stöðuna. Liðið mætir PSV í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Liverpool er í fínum málum í Meistaradeildinni eftir þrjá sigra í fjórum leikjum en tvö 3-0 töp í röð í úrvalsdeildinni, gegn Nottingham Forest og Manchester City, sýna að ekki er allt með felldu hjá meisturunum sem fóru mikinn á leikmannamarkaðnum í sumar.

„Sjálfstraustið er ekki vandamálið hérna. Við verðum að hjálpa okkur að verjast betur. Við erum ekki að gera neitt mikið öðruvísi með boltann frá því á síðustu leiktíð en mörkin sem við fáum á okkur eru það,“ sagði Slot á blaðamannafundi í dag, fyrir leikinn við PSV.

Liverpool hefur skorað 18 mörk í úrvalsdeildinni á leiktíðinni en fengið á sig 20, og tapað sex af tólf deildarleikjum sínum til þessa.

„Ég er búinn að segja það margoft að við finnum aldrei fullnægjandi afsakanir fyrir þessari frammistöðu. Þetta er eitthvað sem hvorki ég né félagið bjóst við, né nokkur annar. En þetta er kannski besta félagið sem lent gæti í svona. Því erfiðari sem hlutirnir verða því meira saman stendur félagið.

Fjöldinn af mörkum sem við höfum fengið á okkur er eiginlega fáránlegur fyrir félag eins og okkur. Við fáum á okkur fleiri mörk en á síðustu leiktíð. Á sama tíma á síðustu leiktíð höfðum við ekki fengið á okkur mark úr föstu leikatriði en núna eru þau níu talsins,“ sagði Slot en Hollendingurinn kenndi ekki neinum um nema sjálfum sér:

„Ég axla ábyrgð á þessu. Ég kenni sjálfum mér um þetta. Sem knattspyrnustjóri reyni ég að ganga á undan með góðu fordæmi og leggja mig enn betur fram. Satt best að segja bjóst ég ekki við að vera í þessari stöðu, miðað við hvernig við nálgumst leikina taktískt og gæðin í leikmannahópnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×