Menning

Skilaði Kommúnistaávarpinu hálfri öld of seint en sleppur við sekt

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sólveig Guðrún, rektor MR, tók við Kommúnistaávarpinu frá Boga hálfri öld eftir að hann hafði fengið hana að láni.
Sólveig Guðrún, rektor MR, tók við Kommúnistaávarpinu frá Boga hálfri öld eftir að hann hafði fengið hana að láni.

Bogi Ágústsson, fyrrverandi fréttamaður og stjórnarmaður í Hollvinafélagi Menntaskólans í Reykjavík, skilaði á stjórnarfundi félagsins bók sem hann hafði fengið lánaða frá Íþöku, bókhlöðu skólans, þegar hann var nemandi, rúmum fimmtíu árum fyrr. 

Þetta kemur fram í færslu sem birtist á Facebook-síðu Menntaskólans í Reykjavík rétt fyrir hádegi.

Bókin sem um ræðir var engin önnur en Kommúnistaávarpið eftir Karl Marx og Friedrich Engels, nánar tiltekið önnur útgáfa frá 1949. Rektor skólans, Sólveig Guðrún Hannesdóttir, veitti bókinni viðtöku og felldi í leiðinni niður áfallnar sektir á bókina.

Sólveig, Bogi, Marx og Kommúnistaávarpið.

Ekki kemur fram hvenær nákvæmlega Bogi fékk bókina að láni en hann útskrifaðist frá MR árið 1972 og hefur hún því verið í fórum hans í að minnsta kosti 53 ár og sennilega eitthvað lengur en það.

Tilgangur Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík er að efla tengsl fyrrum nemenda skólans og styðja við uppbyggingu skólans. Í tilefni af 180 ára afmælis skólans 2026 stendur félagið nú fyrir söfnun fyrir næsta bindi af Sögu Reykjavíkurskóla sem mun fjalla um skólalíf frá miðjum níunda áratug til skólavetursins 2016/2017. Þessi saga mun ekki rata þangað en kannski verður hún neðanmálsgrein í fjórða bindinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.