Fótbolti

Viktor sló Meistaradeildarmet Lamine Yamal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn sautján ára gamli Viktor Bjarki Daðason fagnar hér sögulegu marki sínu í Meistaradeildinni í kvöld.
Hinn sautján ára gamli Viktor Bjarki Daðason fagnar hér sögulegu marki sínu í Meistaradeildinni í kvöld. EPA/Ida Marie Odgaard

Hinn sautján ára gamli Viktor Bjarki Daðason datt kannski niður í fjórða sætið á lista yfir yngstu markaskorara í sögu Meistaradeildarinnar en hann sló annað Meistaradeildarmet með því að skora á móti Kairat Almaty í kvöld.

Viktor Bjarki tók metið af Lamine Yamal og er nú sá yngsti til að skora í fleirum en einum leik í Meistaradeildinni.

Viktor Bjarki kom inn á sem varamaður á móti Dortmund og skoraði þá sitt fyrsta mark í Meistaradeildinni í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni.

Í kvöld fékk hann að byrja leikinn og hann kom FC Kaupmannahöfn í 1-0 á 26. mínútu.

Á miðlum danska félagsins má sjá viðtal við Viktor eftir leik og þar kom einnig fram að hann hafði slegið met Yamal um 51 dag.

Viktor fékk fréttirnar í miðju viðtali. „Það hljómar mjög vel,“ sagði Viktor Bjarki brosandi. 

„Mitt markmið í dag var ekki að bæta einhver met en það er samt mjög gaman að vera methafi. Það sem skiptir mig mestu máli er að hafa getað hjálpað liðinu,“ sagði Viktor eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×