Fótbolti

Hákon lagði upp tvö í sigri Lille en Íslendingaliðið á toppnum tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Haraldsson og félagar í Lille unnu góðan sigur í kvöld. 
Hákon Haraldsson og félagar í Lille unnu góðan sigur í kvöld.  Getty/Joris Verwijst

Hákon Arnar Haraldsson og félagar í Lille unnu góðan sigur í Evrópudeildinni í kvöld. Félagi hans í íslenska landsliðinu, Elías Rafn Ólafsson, þurfti aftur á móti að sætta sig við tap í Rómarborg.

Hákon var í aðalhlutverki hjá Lille í 4-0 heimasigri á Dinamo Zagreb. Sigurinn skilar Lille upp í sjöunda sæti með þrjá sigra og tvö töp í fimm leikjum.

Hákon lagði tvö mörk í leiknum og fékk heiðursskiptingu undir lok leiksins.

Hákon átti stoðsendinguna á Felix Correia sem kom Lille í 1-0 á 21. mínútu og Ngal Ayel Mukau kom franska liðinu síðan í 2-0 á 36. mínútu.

Hamza Igamane skoraði þriðja mark Lille á 69. mínútu eftir aðra stoðsendingu frá Hákoni. Fjórða markið skoraði síðan Benjamin André á 86. mínútu.

Elías Rafn Ólafsson og félagar í Midtjylland voru á toppnum fyrir leiki dagsins en töpuðu 2-1 á útivelli á móti Roma. Midtjylland hélt samt toppsætinu á markatölu.

Neil El Aynaoui kom Roma í 1-0 á 7. mínútu leiksins og Stephan El Shaarawy bætti við marki á 83. mínútu. Paulinho minnkaði muninn á 86. mínútu. Elías Rafn varði fjögur skot í marki Midtjylland.

Emil Kornvig tryggði Brann 1-1 jafntefli á móti PAOK í Grikklandi en Grikkirnir komust yfir með marki Luka Ivanusec á 64. mínútu. Eggert Aron Guðmundsson spilaði fyrstu 77 mínútur leiksins.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar eru með átta stig í fjórtánda sæti en liðið er taplaust í síðustu fjórum leikjum sínum eftir tap í fyrsta leik.

Donyell Malen skoraði tvívegis í fyrri hálfleik í 2-1 heimasigri Aston Villa á móti Young Boys frá Sviss.

Malen skoraði fyrra markið á 27. mínútu eftir stoðsendingu frá Youri Tielemans og Morgan Rogers lagði síðan upp mark fyrir hann á 42. mínútu. Joel Monteiro minnkaði muninn á 90. mínútu en Aston Villa landaði sigri.

Aston Villa er í öðru sæti með jafnmörg stig og Midtjylland en lakari markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×