Enski boltinn

Segir Slot hafa viku til þess að bjarga starfi sínu

Aron Guðmundsson skrifar
Arne Slot er að ganga í gegnum erfitt tímabil með Liverpool. Spurningin núna er sú hvort hann geti snúið skútunni við?
Arne Slot er að ganga í gegnum erfitt tímabil með Liverpool. Spurningin núna er sú hvort hann geti snúið skútunni við? Vísir/Getty

Jamie Carrag­her, spark­s­pekingur hjá Sky Sports og fyrr­verandi leik­maður Liver­pool, segir núverandi þjálfara liðsins, Arne Slot, hafa viku til þess að bjarga starfi sínu.

Frá þessu greinir Carrag­her í pistli sem birtist á vef The Telegraph í morgun en pressan á Slot, sem stýrði Liver­pool til Eng­lands­meistara­titils á sínu fyrsta tíma­bili með liðið, hefur vaxið gríðar­lega eftir slæm úr­slit upp á síðkastið.

Liver­pool hefur tapað níu af síðustu tólf leikjum sínum í öllum keppnum, nú síðast á heima­velli gegn PSV í Meistara­deildinni með einu marki gegn fjórum. Raunar er gengi þeirra rauðklæddu núna það versta síðastliðin 71 ár.

Liver­pool er sem stendur í 12.sæti í ensku úr­vals­deildinni og heimsækir West Ham United á sunnu­daginn kemur og í kjölfarið taka við leikir gegn Sunderland á Anfi­eld og svo Leeds United á heima­velli.

Í pistli sínum segir Carrag­her að ef Liver­pol nær ekki að sækja sjö stig eða fleiri af þeim níu sem mögu­leg eru frá þessum þremur leikjum muni Slot ekki vera áfram stætt í starfi.

„Hann hefur viku til þess að bjarga starfi sínu,“ skrifar Carrag­her. „Sama hversu mikinn vel­vilja stjórinn hefur unnið sér inn þá mun Liver­pool ekki geta um­borið slíka niður­sveiflu í gæðum líkt og við höfum orðið vitni að síðustu þrjá mánuði eða svo.“

Carrag­her segist þekkja vel þá stöðu sem Liver­pool sé nú í sökum fortíðar sinnar hjá félaginu.

„Liver­pool leikur sér aldrei að því að reka þjálfara, sér í lagi þá sem hafa sótt titla áður. Eftir að Slot gerði liðið að Eng­lands­meisturum á síðasta tíma­bili leit allt út fyrir að vera hans hjá félaginu yrði löng. En nú, sex mánuðum síðar, er hann að reyna halda út.“

Pistil Carragher í The Telegraph má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×