Handbolti

Bak­slag á fyrstu æfingunni í Dortmund

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andrea Jacobsen sleit liðband í ökkla skömmu fyrir mót.
Andrea Jacobsen sleit liðband í ökkla skömmu fyrir mót. vísir / hulda margrét

Stelpurnar okkar eru mættar til Dortmund þar sem milliriðillinn á HM í handbolta fer fram en dagurinn gekk ekki áfallalaust fyrir sig.

Ferðalagið gekk vel, liðið tók lest frá Stuttgart og var mætt til Dortmund um hádegisbil. Eftir hádegismat skelltu þær sér á æfingu í Westfalen höllinni, fyrir leik morgundagsins gegn Svartfjallalandi.

Þar var vonast til að Andrea Jacobsen myndi mæta til leiks, eftir að hafa misst af öllum þremur leikjum mótsins hingað til, en hún mun ekki geta tekið þátt.

„Við testuðum hana á æfingunni í dag og, því miður, kom það ekki nógu vel út. Smá bakslag í þessu en það var búið að vera fram að þessu góður stígandi. Við vorum farin að láta okkur dreyma um að þetta væri að verða gott en hún verður ekki með á morgun að minnsta kosti“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari á hóteli liðsins í kvöld en Andrea veitti ekki viðtal. 

„Hún er auðvitað hundsvekkt og leið yfir þessu, sem er skiljanlegt. Þetta er mót sem hún er búin að bíða eftir lengi og við líka, við söknum hennar. En við höldum í vonina, við eigum þrjá leiki eftir og sjáum hvernig þetta þróast“ bætti Arnar við en hljómaði ekki bjartsýnn um að Andrea myndi spila á mótinu.

Andrea er lykilleikmaður hjá landsliðinu og með þeim reynslumeiri, hennar er því sárt saknað og sérstaklega í vörninni. 

„Andrea er lykilmanneskja í þessu liði, alveg sama hvar við lítum á það, vörn eða sókn. 5-1 vörnin hefur aðeins verið að trufla okkur, hún og Berglind [Þorsteinsdóttir, sem er í fríi frá handbolta vegna hnémeiðsla] hafa í gegnum árin verið að skipta þeirri stöðu með sér en við höfum þurft að leggja meiri áherslu á 6-0 vörnina. Þannig að þetta bitnar helst á okkur þar“ sagði Arnar.

Klippa: Arnar mættur í milliriðilinn í Dortmund

Aðrir leikmenn Íslands eru klárir í slaginn fyrir fyrsta leik í milliriðlinum, gegn Svartfjallalandi á morgun. Leikurinn hefst klukkan fimm og verður í beinni textalýsingu á Vísi. 

Viðtalið við Arnar má sjá í spilaranum að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×