Handbolti

„Mæta bara strax og lemja á móti“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Matthildur Lilja ætlar að lemja frá sér í dag en sleppur vonandi við rautt spjald.
Matthildur Lilja ætlar að lemja frá sér í dag en sleppur vonandi við rautt spjald. sýn skjáskot

„Ég er mjög sátt með það að geta komið með smá attitude inn í hópinn og hef verið mjög ánægð“ segir sú yngsta af stelpunum okkar á HM, Matthildur Lilja Jónsdóttir, sem ætlar að lemja á Svartfellingum síðar í dag.

Hin 21 árs gamla Matthildur hefur verið í stóru varnarhlutverki á HM ásamt liðsfélaga sínum í ÍR, Katrínu Tinnu Jensdóttur, og bætt vel upp fyrir fjarveru Andreu Jacobsen. Hún hefur verið ánægð með sitt hlutverk og spilamennsku liðsins.

„Við erum ótrúlega ánægðar að hafa náð þessu markmiði og ánægðar með frammistöðuna okkar í leikjunum. Þannig að við erum mjög spenntar fyrir næstu leikjum. Við ætlum að halda áfram að byggja upp okkar leik og byrjum á Svartfjallalandi. Við höfum fulla trú á því verkefni og ætlum að lemja þær aðeins.“

Stelpurnar okkar töluðu einmitt um það, eftir 27-26 tap gegn Serbíu í síðustu viku, að þær hefðu verið full seinar að svara þeim í baráttunni, en sömu mistök verða ekki gerð gegn Svartfjallalandi í dag.

„Já það er það sem við viljum gera, mæta bara strax og lemja á móti, vera svolítið grimmar“ sagði Matthildur, sem fékk rautt spjald á lokamínútunum gegn Serbíu en nær vonandi að beisla sig betur í kvöld.

Matthildur spilaði sína fyrstu landsleiki í haust, skömmu fyrir HM, og var kölluð inn í hópinn á síðustu stundu vegna meiðsla Andreu Jacobsen, en hefur mætt með mikla orku inn í íslenska liðið.

„Maður hefur heyrt það stundum, að ég komi með svolitla orku“ sagði Matthildur þá hlæjandi en viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum að neðan. 

Klippa: Orkumikil Matthildur Lilja ætlar að lemja á Svartfellingum

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×