Körfubolti

Keishana: Allir sigrar eru yfir­lýsing

Árni Jóhannsson skrifar
Keishana Washingto á leiðinni upp að körfunni.
Keishana Washingto á leiðinni upp að körfunni. vísir / Vilhelm

Keishana Washington setti Keflvíkinga á bakið í lok leiksins gegn Val í kvöld og keyrði sigurinn yfir línuna. Leikstjórnandinn skoraði 30 stig og voru stigin í lok leiksins hverju öðru mikilvægara. Keflavík vann leikinn 92-95 eftir rafmagnaðar lokamínútur.

„Við bara framkvæmdum það sem þjálfarinn lagði upp með. Það var smá vesen sem þær settu okkur í en við framkvæmdum okkar plan vel og það skilaði sigrinum“, sagði Keishana þegar hún var spurð um hvað Keflavík hafi gert rétt í lok leiksins.

Keflavík leiddi 64-79 þegar sjö mínútur voru eftir og leiddu með níu stigum þegar minna en tvær mínútur voru eftir. Valskonur nöguðu forskotið niður en komust ekki nær en þremur stigum þegar upp var staðið. 

Hvað gerðist hjá Keflavík í lok leiks þegar þetta leit út fyrir að vera þægilegt?

„Þetta er leikur áhlaupa. Liðin taka 10-12 stiga áhlaup til skiptis og það var bara það sem gerðist í kvöld. Þegar við fórum á okkar áhlaup þá bjuggumst við við því að þær tækju áhlaup líka sem og þær gerðu. Við náðum bara að skera á það í tæka tíð.“

Er þessi sigur yfirlýsing um eitthvað meira hjá Keflavík?

„Allir sigrar eru yfirlýsing.“

Keflavík er á fjögurra leikja sigurgöngu og hafa lagt Grindavík og Val að velli í undanförnum leikjum. Lið sem eru í toppbaráttunni. Hvernig líður leikmönnum Keflavíkur með liðið á þessum tímapunkti?

„Okkur líður vel. Við erum að verða samrýmdari og erum á góðum stað. Allar stelpurnar eru að finna hlutverkið sitt og við erum að spila vel saman.“

Keishana var þá spurð út í frammistöðu sína en hún skoraði 30 stig og gaf sjö stoðsendingar.

„Mér líður vel með sigurinn. Það skiptir ekki máli hvort ég skori 10 eða 30 stig eða gefi einhverjar stoðsendingar. Svo lengi sem að við vinnum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×