Innlent

Gera ráð fyrir 3,4 milljarða rekstrarafgangi A-hluta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. Umræddur A-hluti er sá hluti reksturs borgarinnar sem fjármagnaður er með skatttekjum.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. Umræddur A-hluti er sá hluti reksturs borgarinnar sem fjármagnaður er með skatttekjum. Vísir/Lýður Valberg

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn í gærkvöldi. Stefnt er að rúmlega 3,4 milljarða króna rekstrarafgangi A-hluta. Þá er gert ráð fyrir að í fjárhagsáætluninni fyrir 2026 og fyrir tímabilið til 2030 séu öll markmið fjármálastefnu uppfyllt.

Frá þessu greinir á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Þar segir meðal annars að heildaráhrif breyttrar fjárhagsspár Orkuveitu Reykjavíkur og nýrrar þjóðhagsspár Hagstofu á rekstrarniðurstöðu A-hluta séu metin neikvæð um 1.332 milljónir króna, sem hafi í för með sér að rekstrarniðurstaðan lækkar úr 4.763 milljónum króna í 3.431 milljónir króna.

„Áætlun um arðgreiðslur í A-hluta var endurskoðuð á milli umræðna til samræmis við fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur. Áhrifin eru til lækkunar um 1.871 milljón króna.

Breyttar forsendur fyrir fjárhagsáætlun eru í samræmi við nýja þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var þann 14. nóvember sl. Í uppfærðri þjóðhagsspá er nú gert ráð fyrir minni hagvexti, hærri verðbólgu og lakari horfum á vinnumarkaði. Spáin tekur mið af dræmari útflutningshorfum í kjölfar ýmissa rekstraráfalla undanfarinna mánaða,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra að haldið verði áfram að byggja upp þjónustu borgarinnar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra. Þá sé verið að gefa í og liða fyrir húsnæðisuppbygginu.

„Á bak við upphæðir í fjárhagsáætlun eru íbúar sem treysta á fjölþætta þjónustu borgarinnar. Á árinu 2026 verður unnið ennfrekar að því að skapa svigrúm til að bæta í þjónustuna við okkar viðkvæmustu hópa. Leiðarljósið í þeirri vinnu eru áhugaverðar tillögur sem bárust í samráðsferli frá íbúum og starfsfólki borgarinnar. Þá eru einnig settar fram nýjar aðgerðir til að sporna við veikindum meðal starfsfólks.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×