Viðskipti innlent

Nefndar­maður hefði kosið að halda stýri­vöxtunum ó­breyttum

Atli Ísleifsson skrifar
Fulltrúar peningastefnunefndar Seðlabankans. Ásgerður Ósk Pétursdóttir, Tómas Brynjólfsson, Herdís Steingrímsdóttir, Ásgeir Jónsson og Þórarinn G. Pétursson.
Fulltrúar peningastefnunefndar Seðlabankans. Ásgerður Ósk Pétursdóttir, Tómas Brynjólfsson, Herdís Steingrímsdóttir, Ásgeir Jónsson og Þórarinn G. Pétursson. Seðlabankinn

Herdís Steingrímsdóttir, nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, studdi tillögu seðlabankastjóra um að lækka stýrivexti um 25 punkta í síðasta mánuði en hefði þó kosið að halda vöxtum óbreyttum.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar vegna vaxtaákvörðunar 19. nóvember sem birt var á vef Seðlabankans í gær.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað á fundinum að lækka stýrivexti bankans um 25 punkta og fóru þeir úr því að vera 7,5 prósent og í 7,25 prósent. Ákvörðunin kom nokkuð á óvart þar sem flestir greiningaraðilar höfðu spáð því að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum.

Í fundargerðinni segir að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi lagt til að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur.

„Allir nefndarmenn studdu tillöguna en Herdís Steingrímsdóttir hefði þó fremur kosið að halda vöxtum óbreyttum.

Ljóst væri að frekari skref til lækkunar vaxta væru háð því að skýrar vísbendingar kæmu fram um að verðbólga væri að hjaðna í 2½% markmið bankans. Mótun peningastefnunnar næstu misseri myndi sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ sagði í fundargerðinni.

Ekki í fyrsta sinn

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Herdís segist á fundi peningastefnunefndar vilja halda vöxtum óbreyttum þegar ákveðið var að lækka vexti. Á vaxtaákvörðunardegi 21. maí síðastliðinn lagði seðlabankastjóri sömuleiðis fram tillögu um 25 punkta lækkun stýrivaxta – úr 7,75 prósentum í 7,5 prósent. Allir nefndarmenn studdu tillöguna en Herdís sagðist þó fremur hafa kosið að halda vöxtum óbreyttum þá.

Að þessum tveimur tilvikum frátöldum hafa nefndarmenn peningastefnunefndar verið einhuga í ákvörðunum sínum síðasta árið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×