Sport

„Ég mun ekki keppa við Rússa á meðan stríð er í gangi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Linn Svahn vill ekki að Rússar fái að taka þátt í Ólympíuleikunum á meðan innrás þeirra í Úkraínu stendur yfir.
Linn Svahn vill ekki að Rússar fái að taka þátt í Ólympíuleikunum á meðan innrás þeirra í Úkraínu stendur yfir. Getty/Martin Schutt

Sænska skíðastjarnan Linn Svahn lét þau orð falla í október að það kæmi til greina að sleppa Ólympíuleikunum ef Rússar fengju að taka þátt.

Nú eru sumir Rússar einu skrefi nær því að keppa undir hlutlausum fána, eftir að Alþjóðaíþróttadómstóllinn, CAS, gaf grænt ljós á endurkomu rússneskra íþróttamanna.

Eftir sprettgönguna í Granåsen á föstudaginn var Svahn spurð hvort hún stæði við fyrri yfirlýsingar sínar um sniðgöngu.

„Ég stend við það sem ég sagði. Mér finnst rangt að opna dyrnar. Ég vil að FIS [Alþjóðaskíðasambandið] loki þeim, og það gerðu þeir í haust. Ég hef verið skýr með það að ég vil ekki keppa við Rússa á meðan stríð stendur yfir. Það var ástæðan fyrir útilokuninni og það ætti enn að gilda. Þið vitið hvað mér finnst,“ sagði Svahn við sænska Viaplay en NRK segir frá.

En ætlar hún þá ekki að keppa á leiknum í Mílanó og Cortina?

„Markmið mitt er alltaf að keppa. Ég vona að við lendum ekki í aðstæðum þar sem ég þarf að íhuga það. Nú hefur CAS tekið ákvörðun og ég mun gera mitt til að komast á Ólympíuleikana. Ég vona að það hafi þýðingu að FIS sagði nei,“ sagði Svahn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×