Enski boltinn

Karó­lína lagði upp en Hlín meiddist

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hlín spilaði 35 mínútur í dag.
Hlín spilaði 35 mínútur í dag. Stuart Leggett/MI News/NurPhoto via Getty Images

Hlín Eiríksdóttir fór meidd af velli í 3-0 tapi Leicester City fyrir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Hlín var í byrjunarliði Leicester er Manchester City var í heimsókn í dag en fór meidd af velli eftir rúmlega hálftíma leik. Þá var staðan 0-0 og markalaust var allt fram á 74. mínútu þegar jamaíska markadrottningin Khadija Shaw kom City yfir.

Shaw skoraði öðru sinni á 83. mínútu og brasilíski kantmaðurinn Kerolin skoraði þriðja mark City í uppbótartíma.

City vann 3-0 sigur og er á toppi deildarinnar með 27 stig eftir tíu leiki. Chelsea er með 21 stig í öðru sæti en á leik inni.

Leicester er í níunda sæti af tólf liðum, með sex stig, fjórum fyrir ofan botnlið Liverpool.

Karólína lagði upp í stórsigri.Antonino Lagana - Inter/Inter via Getty Images

Á Ítalíu vann Inter 5-0 sigur á Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni. Cecilía Rán Rúnarsdóttir varði mark Inter og hélt hreinu og stalla hennar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lagði upp eitt marka Inter.

Í Þýskalandi spilaði Jón Dagur Þorsteinsson síðustu tíu mínúturnar með Herthu Berlín í 2-0 tapi fyrir Magdeburg á heimavelli. Þar með lauk heljarinnar sigurgöngu Herthu en liðið er með 26 stig í 7. sæti í jafnri deildinni. Aðeins þrjú stig eru upp í 3. sætið sem er umspilssæti um sæti í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×