Enski boltinn

Owen um Salah: „Skil hvernig þér líður“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Owen segist skilja líðan Salah vel en gjörðir hans verr.
Owen segist skilja líðan Salah vel en gjörðir hans verr. Samsett/Getty

Michael Owen, fyrrum framherji Liverpool, sem varð síðar óvinsæll hjá félaginu þegar hann samdi við Manchester United, hefur lagt orð í belg varðandi framgang Mohamed Salah eftir leik Liverpool við Leeds í gær.

Owen hefur unnið sem sérfræðingur í sjónvarpi undanfarin ár en tjáði sig um mál Salah á samfélagsmiðlinum X í morgun.

Salah fór hörðum orðum um stjórnendur Liverpool eftir leik liðsins við Leeds í gær sem lauk með 3-3 jafntefli. Um var að ræða þriðja leikinn í röð þar sem Salah sat á varamannabekknum eftir dræmt gengi í aðdragandanum.

Salah sagði þá sem valdið hafa gera sig að blóraböggli og að samband hans við þjálfarann Arne Slot væri brostið.

Owen segist skilja afstöðu Salah en skilur ekkert í því að hann láti hana í ljós með þessum hætti, og á þessum tímapunkti.

„Ó, Mo Salah. Ég get ímyndað mér hvernig þér líður. Þú ert búinn að bera þetta lið á herðum þér í langan tíma og unnið allt sem hægt er að vinna. En þetta er liðsíþrótt og þú getur ekki sagt það sem þú sagðir,“ segir Owen og bætir við:

„Þú ert á leið á Afríkukeppnina eftir viku. Þú hlýtur að geta haldið aftur af þér, notið þess að spila fyrir þjóð þína og séð hvernig landið liggur eftir viku?“

Ljóst er að nóg verður að gera á skrifstofu Liverpool næstu daga og óljóst hvað verður í framhaldinu. Ólíklegt þykir að Slot og Salah geti slíðrað sverðin og leiða má að því líkur að annar þeirra yfirgefi félagið, ef ekki hreinlega báðir.

Liverpool á leik við Inter Milan í Meistaradeild Evrópu í Mílanó á þriðjudagskvöldið kemur og mætir síðan Brighton á Anfield næsta laugardag. Í kjölfarið heldur Salah á Afríkumótið með egypska landsliðinu.


Tengdar fréttir

Skýtur á Salah: „Lætur þetta allt snúast um sig“

Danny Murphy, fyrrum leikmaður Liverpool og sérfræðingur í Match of the Day á breska ríkisútvarpinu, BBC, gagnrýndi framkomu Mohamed Salah eftir leik liðsins við Leeds í gær. Salah rauf þögnina við fjölmiðla eftir þriðja leik hans á varamannabekk liðsins í röð þar sem hann útilokaði ekki brottför frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×