Enski boltinn

Of­sótt af milljarðamæringi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skilaboðin höfðu alvarleg áhrif á Marie Höbinger sem var einfaldlega að reyna að spila eins vel og hún gat í íþrótt og liði sem hún elskar.
Skilaboðin höfðu alvarleg áhrif á Marie Höbinger sem var einfaldlega að reyna að spila eins vel og hún gat í íþrótt og liði sem hún elskar. Getty/Andrea Southam

Maður hefur játað sig sekan um að hafa setið um Marie Höbinger, miðjumann Liverpool, eftir að hafa sent henni ítrekuð skilaboð og mætt á einn af leikjum hennar.

Í yfirlýsingu á vefsíðu bresku saksóknaraþjónustunnar kom fram að hinn 42 ára gamli Mangal Dalal hafi játað að hafa sent leikmanninum skilaboð í gegnum Instagram á tímabilinu 27. janúar 2025 til 16. febrúar 2025.

Nokkrir breskir fjölmiðlar greina frá þessu og segja að þar sé á ferðinni athafnamaðurinn og milljarðamæringurinn Mangal Dalal.

Skilaboðunum var lýst sem „oft kynferðislega grófum“ og innihéldu símanúmer hans og póstnúmer. Hann bað hana einnig um að heimsækja sig og gaf í skyn að hann myndi mæta á leiki hennar.

Dalal ferðaðist síðan til að sjá 4-0 tap Liverpool á útivelli gegn Manchester City þann 16. febrúar 2025. Vallarstarfsmaður kom auga á hann og lét öryggisfulltrúa vita.

Dalal játaði að hafa setið um hana þegar lögreglan yfirheyrði hann en sagðist vera „andlega veikur“. Saksóknaraþjónustan ákærði Dalal fyrir að sitja um hana og dómur yfir honum verður kveðinn upp þann 20. janúar 2026.

Yfirsaksóknarinn Sarah McInerney sagði að Dalal hafa notað hana til að „tjá fantasíur sínar“. Hún bætti við: „Skilaboð hans voru áköf, stöðug og algjörlega óviðeigandi. Þau höfðu alvarleg áhrif á leikmanninn sem var einfaldlega að reyna að spila eins vel og hún gat í íþrótt og liði sem hún elskar.“

„Hegðun Dalals var glæpsamleg og verður ekki liðin í réttlátu og jöfnu samfélagi. Við viljum þakka fröken Hobinger og Liverpool FC fyrir hjálp þeirra við að koma Dalal fyrir rétt.“

Í skýrslu saksóknaraþjónustunnar kom fram að Höbinger hefði haft áhyggjur og tilkynnt skilaboðin frá Dalal til Liverpool. Eins og greint var frá í Mirror leiddi þetta til þess að austurríska landsliðskonan réð sér „öryggisfulltrúa“ sem lífvörð til að fylgja sér til og frá leikjum Liverpool vegna áhyggna um öryggi sitt.

Öryggisfulltrúinn bar kennsl á Dalal sem manninn sem hafði sent Hobinger skilaboðin áður en lögreglan var kölluð til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×