Innlent

Slæm um­hirða augnlinsna geti leitt til al­var­legs augnsjúkdóms

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Gunnar lýsir hornhimnunni sem rúðugleri augans.
Gunnar lýsir hornhimnunni sem rúðugleri augans. Getty

Níu einstaklingar voru greindir með alvarlegan, en sjaldgæfan, augnsjúkdóm á einum aldarfjórðungi. Allir áttu þeir sameiginlegt að nota linsur, tveir misstu sjón og fjarlægja þurfti eitt auga. Augnlæknir segir gríðarlega mikilvægt að stytta sér ekki leiðir í umhirðu snertilinsa.

„Þetta er ein af þeim verstu sýningum sem hægt er að fá í auga eða hornhimnu, eins og við köllum það sem sýkingin leggst á. Ástæðan fyrir því að við vildum fara af stað með þessa vinnu er það að þetta er mjög sjaldgæf augnsýking sem að fer oft undir radar-inn þegar hún er fyrst að láta á sér kræla og er oft misgreind sem önnur vandamál,“ segir Gunnar Már Zoega augnlæknir í Reykjavík síðdegis.

Fyrst var fjallað um rannsóknina í Læknablaðinu en þar kemur fram að helstu einkennin séu roði í auða, aðskotahlutstilfinning, ljósfælni og miklir verkir. Níu einstaklingar voru greindir hér á landi með amöbusýkingu í hornhimnu frá 1996 til 2021. Þrátt fyrir að tíðnin sé lág tengjast um níutíu prósent þeirra notkun á snertilinsum.

Gunnar hvetur þá sem nota linsur að stytta sér ekki leið í umhirðu snertilinsna. Til að mynda komi upp tilfelli þar sem fólk endurnýtir einnota linsur, sofi með þær eða fari með linsur í sund, gufu eða heitan pott.

„Það er kannski dæmigert að linsuvökvinn sé búinn og þá grípi maður í kranavatnið, sem að við höldum og vitum að er ágætt hjá okkur. En þegar maður ætlar að blanda því við linsu sem maður setur síðan í auga þá geta þessar amöbur leynst í kranavatninu. Þeim líður ákaflega vel í volgu linsuboxi með linsu og enn betur þegar þær komast í auga,“ segir hann.

„Hornhimnan er eins og rúðuglerið okkar og við viljum hafa rúðuglerið alveg kristaltært og fínt til þess að njóta útsýnis. Það sama er í auganu, þegar hornhimnan er upp á sitt allra besta þá er hún kristaltær og fín. En þegar það kemur sýking í hana, þá skilur sýkingin eftir sig bandvef eða örvefsmyndun og þá er hún orðin eins og rispað gler.“

Gunnar segir að um leið og áðurnefnd birtast eigi að leggja strax frá linsurnar og leita sér aðstoðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×