Bíó og sjónvarp

Ó­sáttur við fram­haldið: „Skildu ekki hvað gerði þá fyrstu sér­staka“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Russell Crowe var ekki ánægður með það hvernig farið var með persónu hans í seinni myndinni og hvernig siðferðislegur kóði hans var svikinn.
Russell Crowe var ekki ánægður með það hvernig farið var með persónu hans í seinni myndinni og hvernig siðferðislegur kóði hans var svikinn. Getty

Russell Crowe, sem lék skylmingaþrælinn Maximus Decimus Meridius í Gladiator fyrir kvartöld síðan, segir fólkið sem stóð að framhaldinu ekki hafa skilið hvað gerði upphaflegu myndina góða. Það hafi ekki verið pompið, praktið eða hasarinn heldur siðferðislegur kjarni söguhetjunnar.

Crowe var til viðtals á áströlsku útvarpsstöðinni Triple J og ræddi þar um Gladiator II sem kom út í fyrra í leikstjórn Ridley Scott. Sagði Crowe um framleiðendur framhaldsins að þau „skildu ekki hvað gerði þá fyrstu sérstaka.“

Crowe lék með Joaquin Phoenix, Connie Nielsen, Richard Harris og Oliver Reed í Gladiator (2000) í leikstjórn Ridley Scott. Myndin fjallar um Maximus, rómverskan fyrrverandi hershöfðingja, sem er svikinn af keisaranum Kommodusi (Phoenix) með þeim afleiðingum að kona hans og sonur eru drepin og hann hnepptur í þrældóm og gerður að skylmingarþræli.

„Það var ekki pompið og prakið, það var ekki hasarinn. Það var siðferðiskjarninn,“ sagði hann um fyrstu myndina.

Barðist gegn kynlífssenum

Crowe sagði jafnframt að við tökur á Gladiator hefði hann þurft að berjast stöðugt fyrir siðferðiskjarna söguhetjunnar.

„Það var dagleg barátta fyrir því að halda siðferðiskjarna karaktersins. Öll skiptin sem þau lögðu til kynlífssenur og eitthvað svoleiðs dót fyrir Maximus, það sviptir hann kröftum. Ertu að segja að á sama tíma og hann var með eiginkonu sinni, var hann að sofa hjá annarri konu? Hvað eruð þið að tala um? Það er klikkað,“ sagði hann í viðtalinu.

Paul Mescal og Pedro Pascal fara með aðalhlutverk myndarinnar.Paramount Pictures

Gladiator II kom út í fyrra í leikstjórn Ridley Scott með Denzel Washington, Paul Mescal, Pedro Pascal og Connie Nielsen. Söguhetja hennar er Lucius Verus Aurelius (Mescal), sonur Hippolytu drottningar (Nielsen), sem endar sem fangi Rómverja og reynist vera laungetinn sonur Maximusar úr fyrstu myndinni.

„Þau ættu að fokking borga mér fyrir þann fjölda spurninga sem ég er spurður um mynd sem ég var ekki einu sinni í,“ sagði Crowe jafnframt um framhaldið.

„Þetta hefur ekkert með mig að gera. Í þessum heimi er ég dauður, sex fet ofan í jörðinni. En ég viðurkenni að það örlar á öfundsýki því hún minnir mig á það þegar ég var ungur,“ sagði hann einnig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.