Innlent

Slapp ekki með typpamynd til þrettán ára

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin sem maðurinn tók var speglasjálfa en ekki ofan í buxnastrenginn eins og þessi mynd úr safni gæti gefið til kynna.
Myndin sem maðurinn tók var speglasjálfa en ekki ofan í buxnastrenginn eins og þessi mynd úr safni gæti gefið til kynna. Vísir

Rúmlega þrítugur karlmaður hefur verið dæmdur í rúmlega þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að senda þrettán ára dreng typpamynd á Snapchat. Landsréttur sneri við sýknudómi Héraðsdóms Norðurlands eystra.

Þrettán ára fórnarlambið verður senn lögráða því í apríl verða fimm ár liðin síðan málið kom upp. Maðurinn var sakaður um að hafa eftir stutt samskipti á Snapchat sent stráknum mynd sem sýndi líkama karlmanns þar sem hann stóð nakinn fyrir framan spegil, með handklæði yfir annað lærið sem huldi typpi hans að hluta.

Drengurinn sýndi föður sínum strax myndina sem hafði samband við lögreglu. Rannsókn lögreglu var um margt áfátt að því er fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar. Alls voru fjórar myndir í gögnum lögreglu, þeirra á meðal andlitsmynd af manninum, en ekki lá fyrir hvernig þær hefðu borist þangað.

Maðurinn breytti framburði sínum fyrir dómi. Hann hafði í skýrslutöku gengist við að vera maður á mynd sem sagðist fyrir héraðsdómi hafa verið undir þrýstingi hjá lögreglu og sagt rangt frá. Fór svo að héraðsdómur sýknaði manninn.

Landsréttur taldi skýringar mannsins á breyttum framburði ekki trúverðugar. Þá lá fyrir að notendanafn þess sem sendi myndina var hið sama og maðurinn notaði á vefnum Einkamál.is. Landsréttur fann að rannsókn lögreglu meðal annars hvað varðaði að hafa ekki leitað til Snapchat Inc. fyrr en þremur árum eftir að málið kom upp. Gögn sem til stóð að fá frá fyrirtækinu voru þá týnd og tröllum gleymd.

Var maðurinn dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi. Bótakröfu fyrir hönd drengsins var vísað aftur heim í hérað til meðferðar í einkamáli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×