Íslenski boltinn

Gylfi með tvö og Víkingar byrja á sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson bæði skoraði og lagði upp mörk í Breiðholtinu í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson bæði skoraði og lagði upp mörk í Breiðholtinu í kvöld. vísir/Diego

Íslandsmeistarar Víkings unnu 5-2 sigur gegn Leikni í Breiðholtinu í kvöld, í fyrsta leik Reykjavíkurmóts karla í fótbolta. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði tvö fyrstu mörk Víkinga og hinn 16 ára Þorri Ingólfsson var aftur á skotskónum.

Gylfi skoraði fyrsta mark leiksins af stuttu færi úr teignum, eftir þunga sókn Víkinga, en heimamenn jöfnuðu metin skömmu síðar eftir glæfralega sendingu hins 18 ára Jochums Magnússonar sem var í marki Víkings.

Gylfi kom Víkingi hins vegar yfir á nýjan leik, eftir misheppnaða sendingu í vörn Leiknis, með hnitmiðuðu skoti neðst í hægra hornið.

Óskar Borgþórsson bætti svo við þriðja marki Víkings með skoti rétt utan teigs eftir hornspyrnu og fjórða mark Víkings skoraði Þorri Ingólfsson eftir stungusendingu Gylfa fram völlinn. Hinn 16 ára gamli Þorri skoraði einmitt fernu fyrir Víkinga í 5-3 sigri gegn ÍA í Bose-mótinu um síðustu helgi.

Staðan var því 4-1 í hálfleik en Leiknir minnkaði muninn snemma í seinni hálfleik eftir snarpa skyndisókn fram vinstri kantinn.

Helgi Guðjónsson skoraði svo fimmta mark Íslandsmeistaranna, beint úr hornspyrnu þar sem hann nýtti vindinn vel, og þar við sat.

Upplýsingar um markaskorara Leiknis lágu ekki fyrir þegar greinin var skrifuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×