Umræðan

Verð­fall þekkingar í heimi gervi­greindar

Ingi Björn Sigurðsson og Eyþór Ívar Jónsson skrifar

Áður var sérfræðiþekking af skornum skammti. Hún var byggð upp í gegnum menntun, reynslu og áralanga vinnu. Í þekkingarhagkerfi voru það sérfræðingar sem sköpuðu sérstöðu sem var grunnurinn að samkeppnisforskoti fyrirtækja. Þegar þekking verður bæði ódýr og aðgengileg breytist eðli samkeppni. Þekking er ekki lengur sjaldgæf – hún er vara sem er aðgengileg í gegnum gervigreind sem næstum hver sem er getur keypt og virkjað.

Þetta leiðir til verðfalls þekkingar: gæði sem áður voru dýr og einungis fáum fyrirtækjum tiltæk verða nú hluti af grunninnviðum atvinnulífsins.

Umbreyting starfa

Austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter lýsti efnahagsþróun sem skapandi eyðileggingu: Nýjar lausnir leysa þær eldri af hólmi, þannig að það sem fyrir var getur orðið úrelt. Þessi þróun hristir upp í atvinnulífinu og hagkerfinu í heild. Áður fyrr var talað um iðnbyltingar, þegar ný tækni tók við af eldri tækni, þegar vélarnar tóku við því sem var gert með mannshöndinni áður. Á tækniöldinni sem við lifum á, þá er ákveðin hröðun í gangi, aðlöguninn að tækninýjungum er hraðari en nokkrum sinni áður.

Á tímamótum sem þessum þá hefur umræðan alltaf verið sú sama, tæknin mun taka af okkur störfin. Sagan segir okkur aftur á móti að við (starfsfólkið) höfum alltaf náð að aðlaga okkur að nýju normi. Við lærðum á vélarnar, tölvurnar og tæknina. Sum fyrirtæki náðu að aðlaga sig og umbreytast, önnur ekki. Þau sem aðlöguðust ekki töpuðu fyrir nýjum fyrirtækjum sem buðu upp á lausnir sem uppfylltu nýjar þarfir, eða uppfylltu eldri þarfir með minni tilkostnaði.

Þessi tæknibylting hefur sett menntafólk í sömu stöðu, fólk sem seldi hugverk frekar en handverk þarf núna að endurskoða stöðu sína og framtíðarsýn.

Hingað til hafa umbreytingarnar á tækniöldinni haft að mestu jákvæð áhrif á starfsfólk í þekkingargeiranum, þau hafa fengið ný tól til þess að efla þekkingaryfirburði sína. Háskólanám og sérhæfing hefur verið ávísun á betur borgandi störf. En tæknin hefur laumast og farið úr því að vera tól þekkingarstarfsmannsins í að vera þekkingartól fyrir almenning. Þekking sem var einokuð af mennta- og starfsstéttum hefur orðið, að mestu leyti, aðgengileg öllum. Fyrri iðnbyltingar höfðu eyðileggjandi áhrif á ómenntað starfsfólk sem seldi vinnu í formi handverks. Þetta fólk þurfti að finna sér nýjan farveg og handverk til þess að sjá fyrir sér og sínum. Þessi tæknibylting hefur sett menntafólk í sömu stöðu, fólk sem seldi hugverk frekar en handverk þarf núna að endurskoða stöðu sína og framtíðarsýn.

Fjölbreytt þekking verðmæt

Eins og í fyrri iðn- og tæknibyltingum þá þarf starfsfólk, fyrirtæki og hið opinbera að aðlaga sig að nýjum aðstæðum. Það eina sem er öruggt er að gervigreindarbyltingin er komin til að vera og við höfum aðeins séð brot af því sem hún á eftir að breyta. Það er umdeilt hve áhrifin verða mikil á ólíka atvinnugeira og heilu samfélögin. Enn sem komið er hefur gervigreindin ekki leitt til þeirra framleiðniaukningar sem flestir gerðu ráð fyrir en viðskiptahættir og viðmið eru að breytast.

Margir hafa séð samnefnara með innleiðingu internetsins fyrir aldamótin 2000 og innleiðingu gervigreindarinnar. Þegar fjárfestingabólan springur, sem hún gerir að öllum líkindum, verður haldin jarðaför fyrir gervigreindina, rétt eins og fyrir internetið á sínum tíma. Internetið var hins vegar þegar búið að breyta viðskiptaháttum og þau fyrirtæki sem eyðilögðust ekki í eftirleik bólunnar urðu verðmætustu fyrirtæki heimsins. Mjög líklegt er að við sjáum svipaða þróun í kjölfar fjárfestingarbólu í kringum gervigreindina. Gervigreindin er hins vegar komin til að vera og breytir því hvernig við vinnum og leikum okkur.

Það sem truflar umræðuna um gervigreindina eru öfgarnar. Það er ýmist talað um mestu sjónhverfingar sögunnar eða endalok mannkynsins. Hvort tveggja er að öllum líkindum ranghugmyndir. Aðlögunin að gervigreindarbyltingunni gæti orðið hörð og þarf að vera hröð. Eins og í fyrri byltingum þá er ekki til neinn fullkominn leiðarvísir. Líklegt er að vinnuafl, fyrirtæki og hið opinbera þurfi að aðlaga sig hratt að nýrri heimsmynd. Eins og í öllum fyrri iðnbyltingum, munu líka felast tækifæri í þessari nýju tæknibyltingu.

Það er mikilvægt að skilja að þekking kemur í ólíkum myndum og að gervigreindin hefur ekki sömu áhrif á alla þekkingu. Sum þekking lækkar í virði á sama tíma og önnur tegund þekkingar verður verðmætari.

Lykilatriði til þess að geta brugðist við breyttum forsendum er að skilja í hverju núverandi forsendubrestur felst. Þekking er flókið fyrirbæri og margþætt. Ein leið til þess að flokka þekkingu er að byggja á spurnarorðunum.

Hvað – þekking er staðreynda- og upplýsingaþekking. Þetta er sú þekking sem snýr að skráðri þekkingu, gögnum, m.a. um staðreyndir, lög, framleiðslutölur og markaðsupplýsingar. Þetta er sú þekking sem gervigreindin hefur verið að gera ódýra og aðgengilega. Þekkingariðnaður sem byggir á því t.d. að kunna og þekkja reglur og staðreyndir betur en aðrir mun eiga erfitt uppdráttar í nýju viðskiptaumhverfi.

Hvernig – þekking er verk-, ferla- og reynsluþekking. Þessi þekking snýr að því hvernig við gerum hlutina, setjum upp ferla og leysum úr flóknum málum. Gervigreindin getur stutt við þessa þekkingu og hugsanlega í einhverjum tilvikum leyst af hólmi með róbotum og erindrekum (e. AI-agents). Sennilegt er að fyrirtæki geti náð samkeppnisforskoti með því að læra og prófa hratt hvernig hægt er að hagnýta þessa þekkingu. Það verður sennilega veruleg eftirspurn eftir þessari tegund þekkingar í framtíðinni.

Af hverju – þekking snýr að dómgreind, skilningi og siðferði. Hér blandast fræðilegur skilningur á samhengi hluta og skilningur á mannlegu eðli og gildum. Gervigreindin getur stutt greiningar á þessu sviði og jafnvel hjálpað til í greiningum og hugmyndavinnu með því að greina mynstur en það leikur vafi á hversu vel hún getur tekið flóknar ákvarðanir sem eru ekki einungis gagnadrifnar heldur í eðli sínu siðferðislegar og háðar gildum.

Hver – þekking snýr að tengslum, trausti og menningu. Þetta er þekking sem tengir saman fólk og samfélög og er spurning um trúverðugleika og samskipti. Þó að dæmi séu um að gervigreindin geti hermt eftir tilfinningagreind mun betur en læknar og sálfræðingar, verður mikilvægt að þekkja fólk og hafa þekkingu og aðferðir sem hjálpa til við að efla trúverðugleika, tengslamyndun og menningu.

Það er mikilvægt að skilja að þekking kemur í ólíkum myndum og að gervigreindin hefur ekki sömu áhrif á alla þekkingu. Sum þekking lækkar í virði á sama tíma og önnur tegund þekkingar verður verðmætari. Þetta getur haft veruleg áhrif á viðskiptamódel fyrirtækja sem verða að móta virðisframboð sitt á þekkingu, og öðrum þáttum, sem halda virði sínu við breyttar aðstæður en eiga ekki á hættu að lenda í kapphlaupi niður að botninum.

Ný þekking

Hvernig sem fólk vill skilgreina gervigreindina þá má segja að til hafi orðið ný þekking sem byggir á því hvernig hægt er að nýta gervigreindina, AI – þekking. Þetta er þekking sem byggir meðal annars á hæfninni að nota spurnarforritun (e.prompt engineering), hanna verkefni og ferla með aðstoð gervigreindarinnar og samþætta niðurstöður í raunveruleg störf, ferla og samskipti sem hefur virði fyrir hópa, fyrirtæki og samfélag. Þetta er ekki einungis spurning um að skilja tæknina heldur að geta nýtt hana með markvirkum og skilvirkum hætti.

Verðfall staðreyndar þekkingar sem gervigreindin knýr fram er vandamál fyrir þá sem hafa byggt viðskiptamódel á því að vita eitthvað sem aðrir vissu ekki. Aðgengi að slíkri þekkingu gerir þau módel úrelt í skapandi eyðileggingu.

Þessi þekking er stöðugt að mótast og þróast hratt. Hún kallar því eftir að fólk sé með fingurinn á púlsinum og prófi sig áfram og fylgist með nýjum tækjum og tólum sem bjóða upp á nýja möguleika. Það er eins með þessa tækni og alla aðra tækni á undan að hún laumast inn á markaðinn. Í fyrstu er þetta skemmtilegt tæki en mjög takmarkað og að mörgu leyti gallagripur. Smám saman batnar hins vegar tæknin og getur gert hlutina miklu betur en áður. Þá förum við að sjá áhrifin í tölum um framleiðni hjá fyrirtækjum. Þessi tækni mun gera meira, hún mun líka breyta því hvernig fyrirtæki framleiða og selja gæði. Hraði verður lykilþáttur í samkeppnishæfni fyrirtækja. Starfsmenn sem geta verið auðveldara á slíkt ferli með því að vinna með gervigreindinni verða verðmætari en áður.

Þessi nýja AI - þekking verður einnig magnari og jafnvel margfaldari á aðra þekkingu, þ.e. hvar-þekkingu, hvernig-þekkingu, af hverju-þekkingu og hver-þekkingu. Það er hægt að sjá notagildi gervigreindarinnar á öllum þessum sviðum þó að hún geti ekki komið í stað þessarar þekkingar með jafn miklu mæli og hún getur í tilviki staðreyndaþekkingar. Með því að nýta þessa nýju AI - þekkingu sem magnara á aðra þekkingu þá verður sú þekking meira virði af því að við getum gert fleiri og aðra hluti en áður.

Kveiktu á gervigreindinni

Verðfall staðreyndar þekkingar sem gervigreindin knýr fram er vandamál fyrir þá sem hafa byggt viðskiptamódel á því að vita eitthvað sem aðrir vissu ekki. Aðgengi að slíkri þekkingu gerir þau módel úrelt í skapandi eyðileggingu. En breytingarnar fela líka í sér tækifæri og samkeppnisforskot: hæfnina til að tengja saman ólíkar tegundir þekkingar, vinna hratt með gervigreind og taka ákvarðanir sem byggja á gildum, dómgreind og trausti.

Fyrirtæki sem halda áfram að selja „hvað-þekkingu“ munu keppa í verði við vélar sem sofa aldrei. Fyrirtæki sem byggja virði sitt á því hvernig þau læra, af hverju þau taka ákvarðanir og með hverjum þau skapa verðmæti, geta hins vegar notað gervigreind sem margfaldara á mannlega þekkingu í stað þess að líta á hana sem ógn. Viðskiptamódel framtíðarinnar verða að byggja á þessari kviku og skapandi þekkingu.

Viðsnúningurinn sem þarf í viðskiptum felst því ekki í því að slökkva á gervigreindinni, heldur í því að kveikja á nýrri umræðu um þekkingu: Hvaða þekkingu viljum við rækta, hvernig nýtum við nýja tækni til að magna hana upp og hvaða ákvörðunum erum við tilbúin að bera ábyrgð á? 


Ingi Björn er Senior Partner hjá TGC Capital Partners en hann hefur síðustu 15 árin verið í nýsköpun og komið að stofnun tuga sprotafyrirtækja. Eyþór Ívar er forseti Akademias. 






×