Innlent

Stór mál standa enn út af

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Afgreiða þarf frumvarpið um kílómetragjald fyrir áramót eigi áform ríkisstjórnarinnar að ganga eftir.
Afgreiða þarf frumvarpið um kílómetragjald fyrir áramót eigi áform ríkisstjórnarinnar að ganga eftir. Vísir/Anton

Stór mál standa enn út af á Alþingi nú þegar einungis þrír þingfundir eru eftir á árinu, samkvæmt starfsáætlun. Formaður Sjálfstæðisflokksins biðlar til ríkisstjórnar um að hætta að hækka skatta.

Þétt dagskrá er fram undan á Alþingi í dag og raunar næstu daga. Samkvæmt starfsáætlun ætti síðasti fundardagur fyrir áramót að vera á miðvikudag en líklegt má telja að fundað verði lengur í ljósi þess að nokkur stór mál standa enn út af.

Á dagskrá þingsins í dag er meðal annars önnur umræða um bandorminn svokallaða, og atkvæðagreiðsla eftir aðra umræðu um kílómetragjald á ökutæki. Þá á enn eftir að afgreiða fjárlög en þau eru ekki á dagskrá þingsins í dag.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun lýsti Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins áhyggjum af skattahækkunum sem dynji á landsmönnum eftir áramót, meðal annars í formi kílómetragjalds og breyttu vörugjaldi nýrra bíla sem eiga að skila ríkissjóði auknum tekjum.

Hver einasti íbúi, hver einasta fjölskylda, hvert einasta heimili, mun finna áþreifanlega fyrir því. Það verður nefnilega minna í buddunni. Minna til skiptanna. Hættið þið bara að hækka skatta á almenning í landinu,“ sagði Guðrún.

Ekki um skattahækkanir að ræða

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði ekki um skattahækkanir að ræða - heldur breytingar á gjöldum. Þá hafi kílómetragjaldið verið lengi í undirbúningi, allt frá tíð síðustu ríkisstjórnar.

„Vegna þess að vitað var að það væri ekki hægt að standa undir viðhaldi á vegakerfi landsins nema eitthvað kerfi kæmi í stað olíugjaldakerfisins sem var við það að hrynja. Þetta veit háttvirtur þingmaður vel. En það er mjög vinsælt og mjög gaman að vera í minnihluta og bakka með allar ábyrgar tillögur vegna þess að maður þarf ekki lengur að svara fyrir þær, “ sagði Kristrún.

Afgreiða þarf frumvarpið fyrir áramót eigi áform ríkisstjórnarinnar að ganga eftir en lög um kílómetragjald eiga að taka gildi 1. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×