Lífið

Palestínskir fánir leyfðir og óánægju­hróp áhorf­enda ekki falin

Atli Ísleifsson skrifar
Alls munu 35 lönd taka þátt í Eurovision í maí og hafa þátttakendur ekki verið færri síðan 2003.
Alls munu 35 lönd taka þátt í Eurovision í maí og hafa þátttakendur ekki verið færri síðan 2003. EPA

Áhorfendur í sal mega flagga palestínskum fánum í Eurovision-höllinni í Vín í maí á næsta ári og þá verða óánægjuhróp áhorfenda á meðan á flutningi ísraelska lagsins stendur ekki yfirgnæfð í sjónvarpi með tónlist.

Frá þessu greindu aðstandendur keppninnar í dag. Eurovision heldur upp á sjötíu ára afmæli keppninnar í Vín í Austurríki í maí næstkomandi. Keppnin hefur sjaldan verið umdeildari en fimm lönd – Spánn, Holland, Írland, Slóvenía og Ísland – hafa öll ákveðið að sniðganga keppnina vegna ákvörðunar EBU um að heimila þátttöku Ísraela.

„Við munum heimila alla opinbera fána sem til eru í heiminum, að því gefnu að þeir standist lög og séu á ákveðinn hátt í laginu - stærð, öryggisógn og svo framvegis,“ sagði framkvæmdastjóri keppninnar, Michael Kroen, að því er segir í frétt Reuters.

„Við ætlum ekki að sykurhúða neitt eða forðast að sýna hvað er raunverulega að gerast, þar sem okkar hlutverk er að sýna hlutina eins og þeir eru.“

Stefanie Groiss-Horowitz, dagskrárstjóri austurríska ríkissjónvarpsins ORF, segir sömuleiðis að ekki standi til að fela það ef áhorfendur í sal púa meðan á flutningi Ísraela stendur. „Og við munum ekki spila gervilófatak á neinum tímapunkti,“ sagði Groiss-Horowitz.

Yuval Raphael mun flytja framlag Ísraela í maí, en hún var stödd á Nova-tónlistarhátíðinni þegar hryðjuverkamenn Hamas gerðu árás á tónleikagesti 7. október 2023 þar sem 1.200 manns voru drepnir og rúmlega 250 manns voru teknir í gíslingu. Í kjölfar árásarinnar hófu Ísraelar umfangsmiklar hernaðaraðgerðir á Gasa og víðar þar sem rúmlega 70 þúsund manns hafa látið lífið.

Alls munu 35 lönd taka þátt í Eurovision í maí og hafa þátttakendur ekki verið færri síðan 2003.


Tengdar fréttir

Þátt­tökulöndin ekki færri síðan 2003

Þrjátíu og fimm lönd verða með fulltrúa í Eurovision sem fram fer í Vín í Austurríki í maí á næsta ári. Það eru tveimur færri en í Basel í Sviss fyrr á þessu ári.

Sigurvegari Eurovision skilar bikarnum

Sigurvegari Eurovision 2024, söngvarinn Nemo frá Sviss, hefur ákveðið að skila bikarnum. Þetta tilkynnir hán í færslu á Instagram og segir ástæðuna vera áframhaldandi þátttöku Ísrael í keppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.