Innlent

Tvö og hálft ár fyrir að nauðga dóttur ná­granna síns

Kjartan Kjartansson skrifar
Héraðsdómur Norðurlands vestra.
Héraðsdómur Norðurlands vestra. Vísir

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi Andrés Pál Ragnarsson, karlmann á fertugsaldri, í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga og áreita kynferðislega dóttur nágranna síns. Stúlkan var fjórtán ára þegar Andrés Páll braut gegn henni.

Brotin átti sér stað á nýársnótt 2023. Andrés Páll var dæmdur fyrir að kyssa stúlkuna á munninn á heimili hennar og nauðga henni svo í annarri íbúð í sama húsi á meðan hún reyndi ítrekað að fá hann til þess að hætta. Andrés Páll var sjálfur á 33. aldursári þegar hann braut gegn stúlkunni.

Hann neitaði alfarið sök og að stúlkan hefði einu sinni komið inn í íbúð hans þessa nótt. Viðurkenndi hann þó fyrir dómi að hann myndi takmarkað eftir seinni hluta kvöldins sem væri „voðalega blörrí“.

Hélt áfram þrátt fyrir að hún bæði hann um að hætta

Úr dómnum má lesa að stúlkan var í sérlega viðkvæmri stöðu. Barnaverndarþjónusta Mið-Norðurlands hafði haft afskipti af málum hennar um nokkuð langt skeið vegna áhættuhegðunar hennar, áfengisneyslu, skólaforðunar, lyfjanotkunar og sjálfsskaða. 

Þá hafði móðir hennar glímt við vímuefnavanda og vanrækt umsjón og eftirlit með stúlkunni.

Stúlkan greindi frá brotunum í viðtali hjá félagsráðgjafa hjá barnaverndarþjónustu í júní 2023. Lýsti hún því að hún hefði verið mjög drukkin á heimili sínu og að Andrés Páll hefði einnig verið þar. Hann hefði verið mjög óviðeigandi í tali við hana.

Eftir kossinn hefði hún farið með Andrési Páli niður í íbúð hans í sama húsi. Hún hefði ítrekað sagt honum að hætta en hann haldið ótrauður áfram. Hún hefði ælt, grátið mikið og síðan farið heim í sína íbúð.

Hefði átt að ganga úr skugga um aldur stúlkunnar

Andrési Páli og stúlkunni bar ekki saman um hvernig það atvikaðist að hann byrjaði að kyssa hana. 

Stúlkan sagðist ekki muna hvernig kossinn byrjaði en að hún hefði þá sagt honum að hún væri að verða fimmtán ára gömul og ekki á hans aldri. Andrés Páll viðurkenndi að hafa kysst stúlkuna en hélt því fram að kossinn hefði verið gagnkvæmur. Hann hefði talið að stúlkan væri eldri en hún var í raun og veru, á bilinu átján til tuttugu ára.

Dómurinn taldi að Andrési Páli hefði hlotið að vera ljóst að verulegur aldurmunur væri á honum og stúlkunni enda hafi hann sjálfur áætlað að hún væri átján til tuttugu ára gömul. Því hefði honum borið að ganga úr skugga um hversu gömul hún væri áður en hann kyssti hana.

Engin vörn að stúlkan væri samþykk

Varðandi þá vörn mannsins að kossinn hefði verið með vilja stúlkunnar vísaði dómurinn til þess að fortakslaust bann liggi við samræði eða öðrum kynferðismökum við barn undir fimmtán ára aldri og engu skipti þá hvort barnið hafi samþykkt verknaðinn. Það sama eigi við um kynferðislega áreitni.

Vitnisburður móður og stúlkunnar og þáverandi kærasta móður hennar þótti einnig grafa undan trúverðugleika framburðar Andrésar Páls. Þau báru bæði að stúlkan hefði látið þau vita að hún væri á leið niður í íbúð hans. Stuttu síðar hefði hún komið upp aftur og sagt frá því að eitthvað hefði komið fyrir.

Dómurinn taldi framburð stúlkunnar stöðugan, einlægan og sannfærandi. Henni bæri saman við frambuð annarra um hvað hún hefði sagt um brotin. Gat stúlkan meðal annars teiknað herbergjaskipan í íbúð Andrésar Páls hjá lögreglu og fyrir dómi.

Auk fangelsisrefsingarinnar var Andrés Páll dæmdur til þess að greiðas stúlkunni tvær milljónir króna og 3,1 milljón krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×