Innlent

Deildi nöfnum skjól­stæðinga á Instagram

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum við Útlendingastofnun árið 2023.
Frá mótmælum við Útlendingastofnun árið 2023. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður Útlendingastofnunar er sagður hafa deilt nöfnum skjólstæðinga sinna með fólki á Instagram. Það er brot á þagnarskyldu umrædds starfsmanns og er talið alvarlegt brot gegn skyldum embættismanna.

Frá þessu er sagt í frétt Gímaldsins og er haft eftir upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar að trúnaðarbrot séu liðin alvarlegum augum.

Umræddur starfsmaður er sagður hafa deilt nöfnunum í lokuðum hópi á Instagram. Þar deildi hann handskrifuðum verkefnalistum sínum í vinnunni, þar sem mátti sjá nöfn skjólstæðinga.

Einu sinni deildi starfsmaðurinn sjálfsmynd þar sem einnig voru tveir verkefnalistar með nöfnum skjólstæðinga. Starfsmaðurinn hafði þá hakað við nöfnin og stærði sig af því að hafa skilað af sér góðu verki þann daginn.

Nokkur skilaboð virðast hafa verið þess eðlis, miðað við umfjöllun Gímaldsins, þar sem starfsmaðurinn stærði sig af því að hafa lokið verkefnum sem tengdust skjólstæðingum sem voru nafngreindir á myndunum.

Í svari við fyrirspurn Gímaldsins til Útlendingastofnunar segir að rík áhersla sé lögð á vernd persónuupplýsinga þar. Vinnsla þeirra sé þó nauðsynleg starfsemi stofnunarinnar.

Enn fremur segir að starfsfólk Útlendingastofnunar sé bundið þagnarskyldu samkvæmt lögum. Þau og reglur þar að lútandi séu kynntar starfsmönnum sem hefja þar störf.

Ekki hafði tekist að ná í upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar þegar fréttin var birt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×