Íslenski boltinn

Óskar Hrafn um komu Arnórs Ingva: „Gífur­lega dýr­mætt fyrir KR“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason mun koma til með að styrkja lið KR gífurlega mikið. Hann mun spila undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar á næsta tímabili
Arnór Ingvi Traustason mun koma til með að styrkja lið KR gífurlega mikið. Hann mun spila undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar á næsta tímabili Vísir/Samsett

Þau stóru tíðindi bárust úr her­búðum KR í gær að þaul­reyndi at­vinnu- og lands­liðs­maðurinn Arnór Ingvi Trausta­son væri orðinn leik­maður liðsins. Óskar Hrafn Þor­valds­son, þjálfari KR, gleðst yfir því að fá svo stóran prófíl inn í leik­manna­hóp sinn. Arnór muni koma með gæði að borðinu innan vallar hjá KR en Óskar er ekki síður spenntur fyrir því sem hann getur gert fyrir félagið utan vallar.

Arnór Ingvi skrifar undir samning við KR út tíma­bilið 2028. Hann er 32 ára gamall, á besta aldri sem sagt og hefur verið úti í at­vinnu­mennskunni síðustu 11 ár og undangarin tíma­bil hefur hann gegnt lykil­hlut­verki í liði Norrköping í sænsku úr­vals­deildinni.

Alveg sama hvar við vorum og hvar okkur langar til að vera, þá er bara mjög mikilvægt að fá mann eins og Arnór Ingva inn til þess að halda áfram að byggja upp þetta félag, sem er svo sannar­lega ekki vanþörf á. Byggja það upp á réttan hátt en ekki tjalda til einnar nætur.

Óskar Hrafn

KR var á höttunum eftir miðju­manni og nafn Arnórs Ingva kom inn á borðið í Vestur­bænum.

„Við vorum búnir að missa Matthias Præst úr hópnum og því í leit að miðju­manni sem gæti spila bæði aftar­lega en einnig framar á miðjunni. Þegar fór að koma í ljós að Arnór Ingvi gæti verið mögu­leg lausn á því þá áttum við mjög gott sam­tal. Eftir fyrsta sam­talið fannst mér alla­vegana nokkuð ljóst að leiðir okkar ættu að liggja saman,“ segir Óskar Hrafn, þjálfari KR í sam­tali við Vísi.

„Það var mikill sam­hljómur í hans sýn á sitt hlut­verk, hvað hann vildi, og hvernig við sáum hann fyrir okkur, hvað við þurftum. Þegar að það var búið að semja við Norrköping þá gekk þetta mjög hratt fyrir sig.“

Eins og þarna sé ungur leikmaður á ferðinni

Arnór Ingvi hefur unnið titla á sínum ferli í at­vinnu­mennskunni og þar hefur hann flakkað um Svíþjóð, Bandaríkin, Austurríki og Noreg svo eitt­hvað sé nefnt. Þá á hann að baki 67 lands­leiki fyrir Ís­lands hönd. Óskar Hrafn upp­lifir Arnór Ingva mjög peppaðan fyrir komandi verk­efni með KR.

Arnór býr yfir mikilli reynslu af atvinnumanna- og landsliðsferli sínum. Hér er hann í leik með íslenska landsliðinu gegn Portúgal og í baráttunni við núverandi fyrirliða Manchester United, Bruno Fernandes.Vísir/Getty

„Ég upp­lifi hans sýn á þetta eins og að þarna sé bara ein­hver ungur leik­maður á ferðinni að byrja sinn feril miklu frekar en að þarna sé á ferðinni leik­maður kominn á seinni ár ferilsins. Arnór hefur áhuga á því að þróa liðið áfram, hann er framsækinn í fót­bolta­hugsun sinni og ekki síst er hann áhuga­samur fyrir því að taka að sér stórt hlut­verk sem einn af leið­togum liðsins, einn af þeim sem hjálpar til við að búa til sterkan kúltúr í félaginu, hvort sem er hjá meistara­flokki eða bara í félaginu öllu.

Til langs tíma litið sé það auðvitað það dýr­mætasta fyrir KR í heild sinni.

„Að ná að fá leik­mann eins og hann með alla hans reynslu en líka persónu­leikann sem hann býr yfir og þá mann­eskju sem hann hefur að geyma. Það er gífur­lega dýr­mætt fyrir KR. Auðvitað erum við mjög glaðir með að fá hann inn sem leik­mann, það er gríðar­lega sterkt fyrir liðið, en til lengri tíma litið held ég að félagið sjálft muni græða mikið á því að fá mann eins og hann inn.“

Arnór er frábær leikmaður en Óskar Hrafn metur einnig mikils mannlegu kosti hans, góðan persónuleika og manngæskuVísir/Getty

Einn af kyndilberunum

En hver er sýn þín á það hvernig Arnór Ingvi nýtist KR best innan vallar?

„Arnór Ingvi er frábær fót­bolta­maður, hann er góður á boltanum og með mikla hlaupa­getu. Ég sé það fyrir mér að hann muni leiða KR liðið sem þarf að hlaupa mikið og er orku­mikið. Sé hann fyrir mér sem einn af kyndil­berunum þar. Við viljum halda í boltann, spila boltanum á jörðinni og þar kemur hann sterkur inn. 

Hann mun færa liðinu ákveðna reynslu, ákveðna ró líka og mun vera gríðar­lega mikilvægur hlekkur á miðjunni hjá okkur. Það er það sem ég bind vonir við hann innan vallar en er svo jafn spenntur fyrir því sem hann hefur fram að færa utan vallar.“

Stoltur af því að Arnór hafi valið KR

Kom það þér á óvart að svona biti skyldi bjóðast?

„Auðvitað hefði hann auð­veld­lega geta tekið nokkur ár viðbót er­lendis en ég veit ekki hvort þetta hafi komið mér á óvart. Ég var bara glaður yfir því að hann skyldi standa okkur til boða. Síðan eru bara aðrir hlutir en fót­bolti sem fara að telja hjá leik­mönnum sem eru komnir á þennan aldur. Þeir eru með konu og börn, það þarf að huga að þeim hlutum líka, hvar framtíðin liggur. Ég geri ráð fyrir því að það hafi líka spilað risastóra rullu í þessu. Aðal­lega er ég bara mjög glaður af því að hann sé að koma í KR og stoltur af því að hann hafi valið KR.“

Arnór hefur verið burðarás í liði Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni undanfarin tímabil.Norrköping

Ekki tjaldað til einnar nætur lengur

Gengi KR á síðasta tíma­bili var undir væntingum. Liðið var í fall­baráttu alveg fram á síðustu um­ferð en stór­sigur á Vestra þar gull­tryggði Bestu deildar sætið.

Það að fá Arnór Ingva inn, eru það ekki sterk skila­boð til annarra liða í deildinni nú þegar að nokkrir mánuðir eru í mót?

„Ég veit ekki um hvað skila­boðin snúast en auðvitað er það alveg ljóst að síðasta tíma­bil var sér­stakt. Stigasöfnunin var ekki nógu góð, spila­mennskan heilt yfir sóknar­lega var fín. Við náðum mörgum af þeim mark­miðum, töl­fræði­lega, miðað við það sem við hefðum vilja gera fyrir tíma­bilið. Við náðum ekki okkar mark­miðum varnar­lega.“

Frá leik KR á síðasta tímabiliVísir/Anton Brink

„Það er alveg ljóst að KR ætlar sér ekki að vera á sama stað á næsta ári. Alveg sama hvar við vorum og hvar okkur langar til að vera, þá er það bara mjög mikilvægt að fá mann eins og Arnór Ingva inn til þess að halda áfram að byggja upp þetta félag, sem er svo sannar­lega ekki vanþörf á. Byggja það upp á réttan hátt en ekki tjalda til einnar nætur. Byggja upp sjálf­bæran rekstur og svo sjálf­bæran kúltúr sem er það mikilvægasta sem félag á.“

Fær strax sent jólaprógram

Óskar Hrafn reiknar með Arnóri Ingva á æfingu hjá KR strax í upp­hafi nýs árs en hann mun þó ekki geta spilað með liðinu á undir­búningstíma­bilinu fyrr en í fyrsta lagi í febrúar.

„Hann fær bara jólaprógram strax, byrjar að æfa eftir því og svo byrjum við að æfa aftur saman 5.janúar. Ég á ekki von á öðru en því að hann verði mættur á æfingu þá. Hann er ekki lög­legur í leikjum hjá okkur fyrr en í byrjun febrúar. Svo þarf hann að skjótast út til Svíþjóðar og ganga frá sínum málum, klára sín mál þar. Hann og fjöl­skyldan hafa búið lengi þar, þú flytur ekki bara heim til Ís­lands sí svona á einum eftir­mið­degi. Hann byrjar að æfa með okkur 5.janúar en þarna er á ferðinni maður sem spilaði alla leiki með Norrköping á nýaf­stöðnu tíma­bili, er í topp­standi og maður treystir því og ég veit að hann mun setja standardinn fyrir aðra leik­menn liðsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×