Handbolti

Haukur getur náð hundrað plús hundrað fyrir EM-fríið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Þrastarson í leik með íslenska handboltalandsliðinu á stórmóti. Þarna er hann að skora á móti Austurríki á EM.
Haukur Þrastarson í leik með íslenska handboltalandsliðinu á stórmóti. Þarna er hann að skora á móti Austurríki á EM. Getty/Tom Weller

Selfyssingurinn öflugi Haukur Þrastarson átti enn á ný flottan leik með Rhein-Neckar Löwen í þýska handboltanum um helgina.

Ljónin unnu sex marka sigur á Hamburg, 35-29, og Haukur kom að fjórtán mörkum í leiknum, skoraði sjö og gaf sjö stoðsendingar að auki.

Löwen á bara eftir að spila einn leik á þessu ári, útileik á móti Leipzig, en það verður jafnframt síðasti leikur liðsins fyrir EM-fríið.

Haukur gæti náð merkilegu takmarki í þessum leik á móti Leipzig á þriðja degi jóla.

Hann er eins og stendur með 95 mörk og 94 stoðsendingar eftir átján leiki í þýsku Bundesligunni á þessu tímabili.

Hann gæti því komist í bæði hundrað mörk og hundrað stoðsendingar í þessum leik gangi hlutirnir áfram vel hjá honum. Um leið myndi hann ná því að koma að tvö hundruð mörkum í aðeins nítján leikjum.

Haukur hefur verið með að minnsta kosti sjö mörk og sjötíu prósent skotnýtingu í síðustu fjórum deildarleikjum Löwen sem lofar einnig góðu fyrir lokaleikinn.

Haukur er annars áfram með langflestar stoðsendingar í deildinni og eftir leiki gærdagsins þá er hann í sextánda sætinu yfir markahæstu leikmenn.

Ómar Ingi Magnússon er fjórði markahæstur í deildinni og Gísli Þorgeir Kristjánsson er þriðji í stoðsendingunum á eftir Hauki og Dananum Mathias Gidsel. Gidsel er markahæstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×