Innlent

Opið í kirkju­görðum allar há­tíðarnar og lög­regla með eftir­lit

Lovísa Arnardóttir skrifar
Kirkjugarðarnir verða opnir allar hátíðarnar. Það verður líklega lítill snjór eins og á þessari mynd sem er úr safni.
Kirkjugarðarnir verða opnir allar hátíðarnar. Það verður líklega lítill snjór eins og á þessari mynd sem er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir fólk á að leggja í sérmerkt bílastæði í kirkjugörðum höfuðborgarsvæðisins og að aka aðeins á malbikuðum vegum ætli það að heimsækja látna ástvini sína um hátíðarnar. Kirkjugarðarnir verða opnir allar hátíðarnar og má búast við mikilli umferð. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir á í tilkynningu að búast megi við mikilli umferð við kirkjugarða á höfuðborgarsvæðinu á Þorláksmessu og aðfangadag. Kirkjugarðarnir séu opnir og aðgengilegir allan sólarhringinn yfir hátíðirnar.

Lögreglan mun samkvæmt tilkynningu fylgjast sérstaklega með umferð við Fossvogskirkjugarð og Gufuneskirkjugarð á aðfangadag og greiða fyrir umferð eins og hægt er. Lögregla minnir fólk á halda sig á malbikuðum götum og leggja í bílastæðin, í stað þess að aka inn á grafarsvæðin. Samkvæmt tilkynningu lögreglunnar mátti sjá skemmdir í kirkjugörðum vegna þessa. Lögregla minnir fólk einnig á að klæða sig vel en búið er að spá afar slæmu veðri á aðfangadag. 

Í tilkynningu er einnig vakin sérsök athygli á því að Fossvogskirkjugarður er lokaður allri bílaumferð á aðfangadag frá klukkan 11 til 14 vegna mikils fjölda gangandi vegfarenda og slysahættu. Ökumönnum er bent á bílastæði við Fossvogskirkju, Klettaskóla, Suðurhlíð og Vesturhlíð.

Aðkoma að Gufuneskirkjugarði verður eingöngu frá Hallsvegi. Starfsfólk Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma stýrir umferðinni inni í kirkjugarðinum og verður um eins konar hringakstur að ræða. Farið er út úr Gufuneskirkjugarði norðanmegin og inn á Borgaveg. Ökumenn eru beðnir um að aka Borgaveg í vestur og þaðan um Strandveg. Með þessu móti minnkar álagið á Víkurveg og Hallsveg og greiðir fyrir umferð þeirra sem eru að koma í kirkjugarðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×