Sport

Þessi tíu eru til­nefnd sem Í­þrótta­maður ársins 2025: 23 ára aldurs­munur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir með verðlaunastyttuna sem hún hefur varðveitt í eitt ár sem Íþróttamaður ársins 2024.
Glódís Perla Viggósdóttir með verðlaunastyttuna sem hún hefur varðveitt í eitt ár sem Íþróttamaður ársins 2024. vísir/Hulda Margrét

Nú er orðið ljóst hver voru besta íþróttafólk ársins á Íslandi að mati Samtaka íþróttafréttamanna. Vísir birtir í dag topp tíu listann yfir besta íþróttafólk ársins 2025 á Íslandi að mati samtakanna en þetta verður í sjötugasta sinn sem samtökin kjósa Íþróttamann ársins og því um stór tímamót fyrir kjörið að ræða.

Að venju er það opinberað rétt fyrir jól hvaða tíu fengu flest atkvæði en eins eru þrír tilnefndir sem þjálfari ársins og þrjú lið tilnefnd sem lið ársins.

Karlarnir voru aldrei í minnihluta fyrstu 67 árin í sögu kjörsins en konurnar hafa verið í meirihluta síðustu tvö ár í röð. Nú eru aftur fleiri karlar en konur meðal þeirra tilnefndu. Sex karlar eru tilnefndir en bara fjórar konur.

Íþróttafólkið sem endaði í tíu efstu sætunum í ár kemur frá sjö mismunandi íþróttasamböndum sem er einu fleira en í fyrra. Knattspyrna, handbolti og fimleikar eiga öll tvo fulltrúa en eins er fólk tilnefnt úr sundi, skotfimi, körfubolta og ólympískum lyftingum.

Síðustu fjórir íþróttamenn ársins eru allir tilnefndir í ár en það eru þau Glódís Perla Viggósdóttir, ríkjandi íþróttamaður ársins, Gísli Þorgeir Kristjánsson (2023) og Ómar Ingi Magnússon (2021 og 2022).

Fimm af tíu eru síðan fædd á þessari öld eða á árinu 2000 eða síðar. Elstur á topp tíu listanum er hinn 43 ára gamli Jón Þór Sigurðsson en yngst er fimleikakonan Hildur Maja Guðmundsdóttir sem er tvítug. Jón Þór er elstur til að vera tilnefndur á þessari öld en hann er sá elsti síðan hestamaðurinn Sigurbjörn Bárðarson var tilnefndur árið 1999, þá 47 ára gamall.

Fjögur á listanum í ár voru einnig meðal tíu efstu í fyrra en það eru þau Eygló Fanndal Sturludóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Ómar Ingi Magnússon. Glódís Perla er tilnefnd fjórða árið í röð og í sjötta skiptið alls en Snæfríður Sól er tilnefnd þriðja árið í röð. Ómar Ingi er á topp tíu listanum í fjórða skiptið á síðustu fimm árum.

Fjórir eru síðan nýliðar í hópi þeirra tíu efstu eða það eru Dagur Kári Ólafsson, Hákon Arnar Haraldsson, Hildur Maja Guðmundsdóttir og Jón Þór Sigurðsson. Dagur Kári er fyrsti fimleikakarlinn í sjö ár sem er tilnefndur eða síðan Valgarð Reinhardsson var á topp tíu árið 2018. Jón Þór er aftur á móti fyrsti skotíþróttamaðurinn sem er tilnefndur frá árinu 2012 þegar Ásgeir Sigurgeirsson var tilnefndur.

Þeir þjálfarar sem eru tilnefndir sem þjálfarar ársins eru í stafrófsröð: Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta og seinna á árinu þjálfari karlaliðs Vals í handbolta, Dagur Sigurðsson, þjálfari karlaliðs Króatíu í handbolta og Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðs Íra í fótbolta.

Tvö kvennalið og eitt karlalið eru tilnefnd sem íþróttalið ársins 2025. Það eru kvennalið Breiðabliks í fótbolta sem varð tvöfaldur meistari og komst áfram í Evrópukeppninni, karlalið Fram í handbolta sem varð tvöfaldur meistari og kvennalið Vals í handbolta sem vann tvöfalt hér heima og bætti síðan Evrópumeistaratitli við það, fyrst íslenskra kvennaliða.

Þetta verður í sjötugasta sinn sem Íþróttamaður ársins er útnefndur af Samtökum Íþróttafréttamanna en fyrstur til að hljóta þessa viðurkenningu var Vilhjálmur Einarsson árið 1956 en hann vann það ár silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu.

Kjöri Íþróttamanns ársins verður lýst í Hörpu laugardagskvöldið 3. janúar 2026. Kjörið fer nú fram eftir áramót þriðja árið í röð.

  • Tíu efstu í stafrófsröð
  • Dagur Kári Ólafsson
  • Eygló Fanndal Sturludóttir
  • Gísli Þorgeir Kristjánsson
  • Glódís Perla Viggósdóttir
  • Hákon Arnar Haraldsson
  • Hildur Maja Guðmundsdóttir
  • Jón Þór Sigurðsson
  • Ómar Ingi Magnússon
  • Snæfríður Sól Jórunnardóttir
  • Tryggvi Snær Hlinason
  • -
  • Lið ársins í stafrófsröð
  • Breiðablik kvenna fótbolti
  • Fram karla handbolti
  • Valur kvenna handbolti
  • -
  • Þjálfari ársins í stafrófsröð
  • Ágúst Þór Jóhannsson
  • Dagur Sigurðsson
  • Heimir Hallgrímsson

Hér fyrir neðan má sjá hver eru tilnefnd fyrir frammistöðu sína á Íþróttaárinu 2025. Það er farið stuttlega yfir afrek hvers og eins.

Dagur Kári Ólafsson varð fyrsti fimleikamaður Íslands til að keppa til fjölþrautaúrslita á HM í áhaldafimleikum.FSÍ

Dagur Kári Ólafsson

22 ára fimleikamaður sem er tilnefndur í fyrsta skiptið

Fyrsti íslenski fimleikamaðurinn til þess að keppa í fjölþrautarúrslitum á heimsmeistaramóti í fimleikum og braut þar með blað í íslenskri fimleikasögu. Dagur Kári var lykilmaður í landsliði Íslands á árinu, varð bikarmeistari með félagsliðinu sínu, Gerplu, sem og Íslandsmeistari á bogahesti og hafnaði hann í þriðja sæti í fjölþraut.

Eygló Fanndal Sturludóttir með verðlaun sín.Instagram/@eyglo_fanndal

Eygló Fanndal Sturludóttir

24 ára lyftingakona sem er tilnefnd í annað skipti

Fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í fullorðinsflokki í ólympískum lyftingum þegar hún varð Evrópumeistari í -71 kg flokki á EM í Moldóvu í maí þar sem hún lyfti samanlagt 244 kílóum. Eygló varð einnig Evrópumeistari í jafnhendingu á mótinu þar sem hún lyfti 135 kílóum og fékk silfur í snörun með lyftu upp á 109 kíló.

Gísli Þorgeir Kristjánsson með verðlaunagripinn eftir að hafa orðið Evrópumeistari.Getty/Marius Becker

Gísli Þorgeir Kristjánsson

26 ára handboltamaður sem er tilnefndur í þriðja skipti

Hann var valinn mikilvægasti leikmaður lokaúrslitanna í Meistaradeildinni þegar lið hans Magdeburg fagnaði sigri. Magdeburg varð í öðru sæti þýsku deildarinnar í vor, einu stigi á eftir Füchse Berlín, og er á toppnum núna, án taps. Þá var Gísli Þorgeir einnig í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í janúar.

Glódís Perla Viggósdóttir lyftir Þýskalandsskildinum sem Bayern München vann síðasta vor.Getty/Uwe Anspach

Glódís Perla Viggósdóttir

30 ára knattspyrnukona sem er tilnefnd í sjötta skipti

Var lykilleikmaður og fyrirliði í liði Bayern München sem vann tvöfalt í Þýskalandi auk þess að vinna þýska ofurbikarinn og komst í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Var fyrirliði Íslands á EM í sumar þar sem liðið komst ekki upp úr riðlinum.

Hákon Arnar Haraldsson var fyrirliði íslenska landsliðsins í haust.vísir/Anton

Hákon Arnar Haraldsson

22 ára knattspyrnumaður sem er tilnefndur í fyrsta skiptið

Var lykilmaður á miðju Lille sem hafnaði í fimmta sæti frönsku úrvalsdeildarinnar í vor. Hefur borið fyrirliðabandið nokkrum sinnum í haust þar sem Lille er í harðri baráttu við topp deildarinnar og virðist á leið í umspil um sæti í 16-liða úrslitum í Evrópudeildinni. Bar fyrirliðabandið hjá íslenska landsliðinu í fjarveru Orra Steins Óskarssonar í undankeppni HM í haust þar sem Ísland rétt missti af umspilssæti.

Hildur Maja Guðmundsdóttir með fyrstu verðlaun íslenskrar fimleikakonu á heimsbikarmóti.FSÍ

Hildur Maja Guðmundsdóttir

20 ára fimleikakona sem er tilnefnd í fyrsta skiptið

Fyrst Íslendinga til þess að vinna til verðlauna á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum, þegar hún hafnaði í öðru sæti á gólfi. Að auki keppti hún til úrslita á tvíslá og hafnaði í 8. sæti. Varð bikarmeistari með félagsliði sínu, Gerplu, á árinu og varð hún í 2. sæti á slá á Íslandsmótinu. Hún náði bestum fjölþrautarárangri íslenskra kvenna á Evrópumótinu í Leipzig, sem og heimsmeistaramótinu í Jakarta.

Jón Þór Sigurðsson varð Evrópumeistari.Skotfimisamband Íslands

Jón Þór Sigurðsson

43 ára skotfimimaður sem er tilnefndur í fyrsta skiptið

Hann afrekaði það á árinu að verða Evrópumeistari í riffilskotfimi af 300 metra færi í liggjandi stöðu. Þá vann hann til bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu í sömu grein í ár. Hann tryggði sér EM-gullið með því að ná 599 stigum af 600 mögulegum á EM í Frakklandi. Árangur Jóns var líka nýtt Íslandsmet en hann átti sjálfur fyrra metið.

Ómar Ingi Magnússon hefur verið mjög atkvæðamikill fyrir Magdeburg á þessu tímabili.Getty/Igor Kralj

Ómar Ingi Magnússon

27 ára handboltamaður sem er tilnefndur í fjórða skipti

Missti af HM vegna meiðsla en var gríðarlega mikilvægur fyrir Magdeburg sem rétt missti af þýska meistaratitlinum. Hann skoraði ellefu mörk í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og sex mörk í úrslitaleiknum. Magdeburg hefur verið nær ósigrandi á þessu tímabili og Ómar er í hópi markahæstu manna í þýsku deildinni og Meistaradeildinni.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir bætti mörg Íslandsmet á árinu. Getty/Adam Pretty

Snæfríður Sól Jórunnardóttir

25 ára sundkona sem er tilnefnd í þriðja skipti

Komst í úrslit í 200 metra skriðsundi á EM í 25 m laug í desember. Hún lauk keppni í sjötta sæti í úrslitum. Hún setti þrjú Íslandsmet á EM, í 200 m skriðsundi, 50 m skriðsundi og í 4x50 m skriðsundi kvenna. Hún endaði í 15. sæti í 100 m skriðsundi þar sem hún komst í undanúrslit. Þá vann Snæfríður fern gullverðlaun og þrenn silfurverðlaun á Smáþjóðaleikunum á Andorra og setti þar Íslandsmet í 400 m skriðsundi.

Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum í körfuna með tilþrifum á EM.Getty/Dragana Stjepanovic

Tryggvi Snær Hlinason

28 ára körfuboltamaður sem er tilnefndur í þriðja skipti

Var í algjöru lykilhlutverki í íslenska landsliðinu á Evrópumótinu, fyrsta Evrópumóti Íslands í átta ár. Var sjötti framlagshæsti leikmaður EM með 14,6 stig, 10,6 fráköst og 2,4 varin skot í leik. Hann var með næstflest fráköst í leik og varði flest skot að meðaltali. Var einnig byrjunarliðsmaður hjá liði sínu Bilbao á Spáni en liðið varð Evrópumeistari og vann FIBA Europe-bikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×