Fótbolti

Tap hjá Tómasi í grannaslagnum og toppbaráttan harðnar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tómas Bent og félagar þurftu að þola þungt tap.
Tómas Bent og félagar þurftu að þola þungt tap. Getty/Mark Scates

Tómas Bent Magnússon spilaði 88 mínútur í 3-2 tapi Hearts fyrir Hibernian í Edinborgarslagnum í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Hearts hefur átt glimrandi tímabil og langt er síðan lið annað en Celtic eða Rangers frá Glasgow hefur hótað því að vinna skoska meistaratitilinn. Þó er ávallt strembið að mæta Hibernian í grannaslag Edinborgar líkt og leikmenn Hearts fengu að kynnast í dag.

Hibernian leiddi 2-0 í hálfleik þökk sé mörkum frá Jamie McGrath og Josh Campbell. Snemma í síðari hálfleik kom Kieron Bowie grænklæddum heimamönnum 3-0 yfir.

Grænklæddir Edinborgarar hafa ástæðu til að fagna. Hér er Josh Campbell eftir að hafa skorað annað mark liðsins í leiknum.Roddy Scott/SNS Group via Getty Images

Tvær breytingar voru gerðar á liði Hearts í hálfleik en staðan strembin. Lawrence Shankland minnkaði muninn þegar korter var eftir og Cameron Devlin enn frekar í 3-2 undir lokin.

Þrátt fyrir mikla pressu tókst Hearts ekki að brúa bilið til fulls og Hibernian vann 3-2 sigur. Hibs eru í fimmta sæti með 28 stig en Hearts áfram á toppi deildarinnar með 41 stig eftir 19 leiki.

Celtic, sem hefur farið agalega af stað undir stjórn nýs stjóra Wilfried Nancy, er með 35 stig í öðru sæti en á tvo leiki inni á Hearts og getur því jafnað Edinborgarfélagið að stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×