Erlent

Um­kringdu Taí­van og æfðu lokanir hafna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kínverjar við æfingar. Myndin er frá því í nóvember síðastliðnum.
Kínverjar við æfingar. Myndin er frá því í nóvember síðastliðnum. Getty/CFOTO/Future Publishing

Kínverjar standa nú í umfangsmiklum heræfingum umhverfis Taívan, þar sem þeir líkja eftir lokunum helstu hafna, árásum á skotmörk á sjó og vörnum gegn inngripum þriðju aðila. Yfirvöld í Kína segja um að ræða viðvörun til „aðskilnaðarsinna“ í Taívan.

Hermálayfirvöld greindu frá því að sjó- og flughersveitir hefðu umkringt Taívan í morgun. Þá hefði strandgæslan verið gerð út til að viðhafa eftirlit við ytri eyjar Taívan.

Æfingin, sem Kínverjar hafa nefnt „Réttlætisförina 2025“, væri skýr viðvörun til aðskilnaðarsveita sjálfstæðissinna og utanaðkomandi afla. Um væri að ræða lögmæta og nauðsynlega aðgerð til að standa vörð um sjálfstæði og sjálfræði Kína.

Stjórnvöld í Taívan hafa fordæmt æfingarnar og segja að það að standa vörð um frelsi og lýðræði feli ekki í sér ögrun. Þá ógni þær öryggi skipa á hafsvæðinu umhverfis eyjarnar og réttindum sjómanna.

Samkvæmt bandarískum öryggisyfirvöldum leggja Kínverjar drög að því að efla getu sína til að geta ráðist inn í Taívan árið 2027. Yfirvöld á Taívan hafa á sama tíma unnið að því að efla varnir sínar og segja landsmenn ekki munu sætta sig við yfirráð kínverskra stjórnvalda.

Kínverjar brugðust illa við því á dögunum þegar Bandaríkjamenn samþykktu að selja Taívönum vopn fyrir um það bil ellefu milljarða dala. Um er að ræða stærsta vopnapakkann sem ríkin hafa samið um. Sölunni var mætt með refsiaðgerðum gegn tíu einstaklingum og tuttugu fyrirtækjum, þeirra á meðal Boeing og Northrop Grumman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×