Fótbolti

Fótboltaþjálfari og þrjú börn hans létust í jóla­fríinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Martín var þjálfari spænska kvennaliðsins Valencia CF en hann var í jólafríi með fjölskyldu sinni.
Fernando Martín var þjálfari spænska kvennaliðsins Valencia CF en hann var í jólafríi með fjölskyldu sinni. @@valenciacf_en

Spænskur fótboltaþjálfari og þrjú börn hans fórust í bátaslysi þegar þau voru stödd í jólafríi sínu á vinsælu ferðamannasvæði í Indónesíu.

Um er að ræða Fernando Martín, þjálfara spænska kvennaliðsins Valencia CF Femenino B, eins og félagið staðfestir á miðlum sínum.

Bátur með ellefu manns innanborðs sökk í slæmu veðri nálægt Labuan Bajo, þar sem hann og fjölskylda hans voru í fríi. Indónesískir björgunarmenn leituðu að fjórum fjölskyldumeðlimum en slysið varð nálægt Padar-eyju, vinsælum áfangastað í Komodo-þjóðgarðinum, að sögn yfirvalda.

Eiginkona hans og ein dóttir voru einnig um borð í bátnum en þeim var bjargað í land ásamt fjórum áhafnarmeðlimum og fararstjóra, að því er björgunaryfirvöld greina frá í yfirlýsingu.

Komodo-þjóðgarðurinn er á heimsminjaskrá UNESCO og er frægur fyrir hrikalegt landslag, óspilltar strendur og hina útrýmingarhættu Komodo-dreka. Garðurinn laðar að þúsundir gesta sem koma til að kafa, ganga og fara í dýralífsferðir.

Þeir sem lifðu af fengu aðhlynningu á hafnarskrifstofunni í Labuan Bajo-borg þar sem mikill öldugangur, allt að 2,5 metrar á hæð, og myrkur hindruðu viðbragðsaðila aðfaranótt laugardags, sagði Rahman.

Í leitinni tóku þátt margar björgunareiningar á uppblásnum bátum, herskip með köfunarbúnaði og björgunarskip, með aðstoð sjómanna og íbúa á staðnum. Leitin beindist að 5 sjómílna (9 kílómetra) radíus frá slysstaðnum, þar sem björgunarmenn fundu brak úr bátnum, sagði Rahman.

Fótboltafélagið Real Madrid hefur sent frá sér samúðarkveðju.

„Real Madrid vill lýsa yfir áfalli og innilegustu samúð og sendir samúðarkveðjur og hlýjar hugsanir til eiginkonu hans, Andreu, og dóttur hans, Mar, á þessum ótrúlega erfiðu tímum,“ sagði í yfirlýsingu frá Real.

„Sömuleiðis sendum við samúðarkveðjur til allrar fjölskyldu hans og ástvina, sem og til allrar Valencia-fjölskyldunnar,“ sagði á heimasíðu Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×