Erlent

Fyrsta fórnar­lambið nafn­greint

Atli Ísleifsson skrifar
Emanuele Galeppini sótti staðinn Le Constellation Bar and Lounge á nýársnótt.
Emanuele Galeppini sótti staðinn Le Constellation Bar and Lounge á nýársnótt. AP

Golfsamband Ítalíu hefur staðfest að Emanuele Galeppini, sautján ára kylfingur sem hefur verið búsettur í Dúbaí, hafi farist í sprengingunni á skemmtistað í svissneska skíðabænum Crans-Montana á nýársnótt. Galeppini er fyrsta fórnarlambið sem hefur verið nafngreint opinberlega en um fjörutíu manns fórust í sprengingunni og brunanum.

Í færslu ítalska golfsambandsins segir að Galeppini hafi verið ungur iðkandi sem hafi spilað golf af mikilli ástríðu.

Stjórnvöld í Sviss lýstu í dag yfir fimm daga þjóðarsorg vegna málsins, en auk þeirra sem fórust er áætlað að um 115 manns hafi slasast. Unnið er að því að bera kennsl á látnu og segir lögregla það muni taka daga og jafnvel vikur. 

Tilkynning um sprenginguna og mikinn eld kom um klukkan hálf tvö á nýársnótt að staðartíma þar sem nýársfögnuður stóð yfir á skemmtistaðnum, en hann var vinsæll meðal ungs fólks. 

Ekki hefur verið staðfest hvað olli sprengingunni, en vitni hafa lýst því hvernig barþjónn hafi haldið á samstarfsmanni á háhesti á meðan sá hafi haldið á stjörnuljósi eða blysi sem búið var að kveikja á. Þá er einnig grunur um að flugeldar sem notaðir hafi verið í tengslum við tónleika í kjallara staðarins hafi valdið sprengingu. 

Yfirvöld segja rannsókn á eldsvoðanum meðal annars munu ná til þess hvort öryggiskröfur voru uppfylltar og hvort neyðarútgangar voru í samræmi við reglur.

Le Constellation opnaði árið 2015 og rúmaði um það bil 300 manns. Staðurinn var vinsæll meðal unga fólksins sem heimsótti skíðabæinn og þekktur fyrir að horfa í gegnum fingur sér þegar kom að því að hleypa einstaklingum undir aldri inn.


Tengdar fréttir

Ungur leikmaður Metz slasaðist í sprengingunni

Tahirys Dos Santos, 19 ára leikmaður franska félagsins Metz, var meðal þeirra sem slösuðust í sprengingunni sem varð í kjallara skemmtistaðar í skíðabænum Crans Montana í svissnesku Ölpunum í gærnótt.

Fimm daga þjóðarsorg lýst yfir í Sviss

Stjórnvöld í Sviss hafa lýst yfir fimm daga þjóðarsorg vegna eldsvoðans á barnum Le Constellation í skíðabænum Crans-Montana, þar sem 40 létu lífið og að minnsta kosti 115 særðust. Unnið er að því að bera kennsl á látnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×