Fótbolti

Út­för Åge Hareide fer fram í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Åge Hareide í starfi sínu sem landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Hér var hann að stýra liðinu á móti Wales í Þjóðadeildinni.
Åge Hareide í starfi sínu sem landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Hér var hann að stýra liðinu á móti Wales í Þjóðadeildinni. Getty/James Gill

Í dag kveðja Norðmenn eina mestu fótboltagoðsögn sem landið hefur átt. Útför Åge Hareide, fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, fer þá fram í dómkirkjunni í Molde.

Hareide lést 18. desember síðastliðinn, 72 ára að aldri, eftir að hafa greinst með heilaæxli fyrr á sama ári.

Norska ríkisútvarið segir frá því að klukkan 12:00 í dag að norskum tíma, klukkan 11.00 á íslenskum tíma, hefst útför Hareide og verður jarðarförin sýnd í beinni útsendingu á NRK TV, NRK 2 og TV 2.

„Við erum ánægð með að útförin verði sýnd í beinni útsendingu á NRK2, NRK TV og TV2, svo að allir sem vilja kveðja í hinsta sinn, en hafa ekki tækifæri til að vera í kirkjunni, geti fylgst með athöfninni,“ skrifaði Bendik Hareide, sonur Åge Hareide, í fréttatilkynningu.

Í dómkirkjunni í Molde eru sæti frátekin fyrir boðsgesti og þau sæti sem eftir eru verða í boði fyrir almenning. Nokkrir þekktir einstaklingar heima og erlendis verða viðstaddir útförina og sumir munu einnig koma fram.

Yfirstjórn bæði norska og danska knattspyrnusambandsins verður viðstödd.

Danska knattspyrnusambandið upplýsir TV2 um að nokkrir þekktir danskir fótboltamenn verði á staðnum. Meðal þeirra eru leikmennirnir Christian Eriksen og Simon Kjær. Einnig tekur yfirmaður knattspyrnumála sambandsins, Peter Møller, þátt.

Sama gerir framherjagoðsögnin Jon Dahl Tomasson. Hann var í nokkur ár aðstoðarmaður Hareide hjá danska landsliðinu.

Fyrir hönd norska knattspyrnusambandsins verða forsetinn Lise Klaveness, framkvæmdastjórinn Karl-Petter Løken og landsliðsþjálfarinn Ståle Solbakken viðstödd.

Síðasta starf Åge Hareide var að vera landsliðsþjálfari Íslands frá 2023 til 2024. Auk þess að þjálfa mörg félagslið á Norðurlöndum þá þjálfaði hann einnig danska og norska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×