Fótbolti

Mourinho vonaði að leik­menn hans ættu svefn­lausa nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho var allt annað en sáttur eftir súrt tap í deildarbikarnum.
Jose Mourinho var allt annað en sáttur eftir súrt tap í deildarbikarnum. Getty/Luis Eiras

Jose Mourinho, þjálfari Benfica, var mjög reiður eftir óvænt tap liðsins gegn Braga í undanúrslitum portúgalska deildabikarsins á miðvikudag.

Benfica var 2-0 undir í hálfleik og tapaði 3-1 í Leiria. Mourinho sagði á blaðamannafundi eftir leikinn að leikmenn hans myndu sofa á æfingasvæði félagsins í Seixal næstu daga til að íhuga óvænt brotthvarf sitt úr keppninni.

Fóru ekki heim

„Þar sem við héldum að við myndum spila úrslitaleikinn förum við ekki heim, við förum til Seixal. Leikmennirnir munu sofa í Seixal og á morgun er æfing og hinn er æfing,“

„En það er enginn leikur á laugardag. Þar sem enginn úrslitaleikur er á laugardag er næsti leikur okkar gegn FC Porto næsta miðvikudag [í átta liða úrslitum portúgalska bikarsins]. Þegar við komum til Seixal fara allir inn í herbergin sín. Ég vona að leikmennirnir sofi jafn vel og ég, sem sagt, að þeir sofi ekkert. Það er það sem ég óska þeim. Að þeir sofi ekki og hugsi mikið, eins og ég mun gera.“

Benfica hafði bundið miklar vonir við að lyfta bikarnum eftir að Sporting CP tapaði 2-1 fyrir Vitoria Guimaraes í undanúrslitaleiknum á þriðjudag.

Mourinho, sem tók við stjórnartaumunum hjá Benfica í september, var svekktur yfir samskiptaleysi leikmanna sinna.

Á morgun getum við byrjað að tala saman

„Á morgun getum við byrjað að tala saman, sem er ekki það sem gerðist í búningsklefanum,“ sagði fyrrverandi þjálfari FC Porto, Chelsea og Manchester United.

„Í búningsklefanum var einræða og einræður virka ekki fyrir mig; mér líkar að eiga samræður við leikmennina. Við munum ræða muninn á fyrri og seinni hálfleik og undirbúa okkur á besta mögulega hátt fyrir leikinn gegn FC Porto,“ sagði Mourinho.

Benfica er í þriðja sæti Primeira Liga, tíu stigum á eftir toppliði Porto.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×