Körfubolti

„Hlutir sem ég hefði ekki getað gert ef ég væri að spila“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Remy Martin er magnaður leikmaður með skýr markmið.
Remy Martin er magnaður leikmaður með skýr markmið.

Remy Martin sneri aftur á körfuboltavöllinn í gærkvöldi eftir tæplega tveggja ára baráttu við meiðsli. Hann lýsir síðustu misserum sem ljúfsárum tíma í sínu lífi.

Remy átti fínan leik með liði Keflavíkur í hádramatískum sigri gegn Val í átta liða úrslitum bikarsins. Hann skoraði 13 stig, gaf 9 stoðsendingar og greip 7 fráköst, en varð svo fyrir smávægilegu hnjaski og spilaði ekki síðustu mínútur leiksins. Egor Koulechov skoraði magnaða þriggja stiga körfu sem tryggði Keflavík sigurinn og áframhald í undanúrslit.

Fyrir leikinn ræddi Remy við Val Pál Eiríksson um meiðslabaráttuna hjá sér síðustu tvö árin en hann sleit hásin í undanúrslitaeinvígi Keflavíkur og Grindavíkur vorið 2024, skömmu eftir að hafa orðið bikarmeistari.

„Þetta var ljúfsár tími. Þetta gerði mér kleift að sinna fjölskyldunni og mynda sterk tengsl. Auðvitað var erfitt að geta ekki spilað íþróttina sem ég elska, en ég fékk að verja tíma með fjölskyldunni. Ég gat fylgst með frænku minni vaxa úr grasi, allir þessir hlutir sem ég hefði ekki getað gert ef ég væri að spila. Þannig að það fer eftir því hvernig þú lítur á það. Já, þetta var mjög erfitt á köflum, en fólkið í kringum mig lét mér bara líða eins og ég væri í fríi.“

Nú setur Remy stefnuna á titilinn sem hann sá renna sér úr greipum í þessum örlagaríka leik gegn Grindavík. Ásamt því að verða bikarmeistari í annað sinn.

„Augljóslega er markmiðið að vinna titla, þess vegna kom ég hingað, til að hjálpa þeim að ná meistaratitlinum. Ég er með frábæran þjálfara, liðsfélaga og stuðningsmenn. Ég er í rauninni með allt sem ég þarf, nú þarf ég bara að komast út á gólf og spila körfubolta. Ég hef haldið mér í formi og sinnt því sem þarf að sinna til að vinna titilinn. Við þurfum að bæta okkur, á hverjum degi, sem einstaklingar og lið en líka sem manneskjur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×