Fótbolti

Al­gjör upp­lausn í úr­slita­leik Afríkukeppninnar: „Farsakennt“

Aron Guðmundsson skrifar
Það varð allt vitlaust í úrslitaleik Marokkó og Senegal í Afríkukeppninni.
Það varð allt vitlaust í úrslitaleik Marokkó og Senegal í Afríkukeppninni. Vísir/Getty

Það varð allt vitlaust undir lok uppbótartíma venjulegs leiktíma í úrslitaleik Afríkukeppninnar í fótbolta í kvöld og landslið Senegal yfirgaf völlinn eftir óskiljanlegar ákvarðanir dómara leiksins en stóð svo á endanum uppi sem Afríkumeistari.

Þegar langt var liðið á uppbótartíma venjulegs leiktíma í úrslitaleik Marokkó og Senegal, ákvað dómari leiksins að dæma vítaspyrnu, Marokkó í hag, fyrir afar litlar sakir í stöðunni 0-0 og það var þá sem allt varð vitlaust.

Skömmu áður hafði Ismaila Sarr komið boltanum í netið fyrir Senegal en markið stóð ekki þar sem dómarinn hafði skömmu áður en boltinn fór yfir línuna gefið Marokkó aukaspyrnu fyrir það sem aftur verður að teljast afar litlar sakir. 

Þegar að dómari leiksins, Jean-Jacques Ndala, dæmdi vítaspyrnu skipaði bálreiður Pape Thiaw, landsliðsþjálfari Senegal, leikmönnum sínum að yfirgefa völlinn í mótmælaskyni.

Það varð allt brjálað innan vallar sem og upp í stúku eftir ákvarðanir dómarans sem ræddi við þjálfara beggja liða í kjölfarið. Þau samtöl báru ekki árangur og strunsaði Thiaw með alla leikmenn sína, nema Sadio Mané, inn til búningsherbergja. 

Svipmyndir frá Stade Prince Moulay Abdallah í Marokkó þar sem úrslitaleikur Senegal og heimamanna fer fram. Vísir/Getty

Það var Mané sjálfur sem fékk liðsfélaga sína til þess að snúa aftur inn á völlinn. Vítaspyrnudómur Jean-Jacques stóð og það var Brahím Díaz sem tók spyrnuna fyrir Marokkó. 

Svo fór að hann reyndi Paneka spyrnu af vítapunktinum, það er að segja lyfti honum mjúklega beint í átt að miðju marksins. Edouard Mendy, markvörður Senegal, átti ekki í vandræðum með að verja hana, þurfti bara að standa kyrr á línunni og það gerði hann. 

Leiktíminn rann út, staðan enn markalaus og grípa þurfti til framlengingar.

Þar skoraði Pape Gueye mark fyrir Senegal sem reyndist að lokum sigurmark leiksins og liðið sem var nóg boðið á einum tímapunkti og yfirgaf völlinn, sneri aftur, sótti sigur og er nú Afríkumeistari. 

Pape Gueye fagnar marki sínu í framlengingunni af mikilli innlifunVísir/Getty

Þetta er í annað skipti í sögunni sem Senegal verður Afríkumeistari í fótbolta en liðið vann mótið einnig árið 2021, þá í fyrsta skipti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×